Vefþjóðviljinn 69. tbl. 17. árg.
Vefþjóðviljinn trúði því í græskuleysi sínu að skrif svonefndra sjálfstæðra Evrópusinna hefðu náð alveg niður á botninn undanfarna daga með ýmsum hnjóðsyrðum Benedikts Jóhanessonar og Helga Magnússonar um félaga sína á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
En þá var hann líka alveg búinn að gleyma Þóri Stephensen sem gekk úr Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkrum árum. Þórir var þá bálreiður yfir því að sjálfstæðismenn væru að berjast gegn Icesave samningum ríkisstjórnarinnar.
Í Fréttablaðinu í gær skrifar Þórir um nýlegar ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins um Evrópusambandið undir yfirskriftinni „Andlegt ofbeldi í Sjálfstæðisflokknum“:
En það sem er nú komið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, rímar einkum við þrennt sem ég man eftir: Kaþólsku kirkjuna á hinum svörtustu miðöldum, er hún samdi „Skrá yfir bannaðar bækur“. Í öðru sæti eru bókabrennur Hitlers. Í þriðja sæti kemur svo ritskoðun Sovétsins.
Þá er þetta vonandi frá hjá sjálfstæðum Evrópusambandssinnum. Viskubrunnurinn er væntanlega tæmdur í bili nú þegar séra Þórir er búinn að „ríma“ fyrrum félaga sína í Sjálfstæðisflokknum við Hitler, Sovétríkin og voðaverk kaþólsku kirkjunnar á miðöldum.
Það er hins vegar rannsóknarefni, sem Vefþjóðviljinn viðurkennir fúslega að hafa ekki næga fagþekkingu á, hvers vegna aðild að ESB getur orðið svo svakaleg þráhyggja að menn telji fólk sem er annarrar skoðunar „ríma“ við Hitler og Stalín. Hvers vegna kalla menn lýðræðislega ákvörðun á 1.500 manna landsfundi „andlegt ofbeldi“?
Íslenskt þjóðfélag er nefnilega ekki mjög frábrugðið því sem finnst í mörgum löndum Evrópusambandsins. Hér eru að mörgu leyti sömu lög og reglur í innan sambandsins. Íslendingar og fleiri Evrópuþjóðir utan sambandsins hafa viðskiptasamning við ESB sem tryggir sæmilega frjáls viðskipti á mörgum sviðum. Hver maður getur því haft öll þau samskipti við Evrópu sem hann lystir.
Af sjónarhóli ESB-sinna myndi því fátt markvert gerast við inngöngu í sambandið. Fyrir ESB-sinna væri innganga Íslands í ESB eins og að maður sem vill eingöngu ganga í Versace eignaðist loks handtösku í stíl við fötin frá þeim merka klæðskera.
Þessi ofboðslega heift og gífuryrði í garð þeirra sem vilja standa utan sambandsins er algerlega óskiljanleg.