Vefþjóðviljinn 44. tbl. 17. árg.
Þær hafa verið mjög sérstakar fréttirnar af afskiptum Ögmundar Jónassonar af samstarfi íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda. Innanríkisráðherra Íslands mun hafa bannað íslenskum lögreglumönnum að vera viðstaddir þegar bandarískir lögreglumenn, sem hingað virðast hafa verið komnir með löglegum hætti og leyfi yfirvalda, yfirheyrðu Íslending um félagsskapinn Wikileaks.
Smáflokkur á þingi, sem ríkisstjórnin á líf sitt undir, er mjög hliðhollur Wikileaks og að minnsta kosti einn þingmaður smáflokksins hefur tengst samtökunum verulega. Ekki er vitað hvort sú staðreynd hafði áhrif á ákvarðanir ráðherrans.
Fréttamenn Ríkisútvarpsins eru nú komnir á fulla ferð til aðstoðar ráðherranum. Í dag var sögð mikil frétt um að ríkislögreglustjóraembættið hefði vitað af yfirheyrslu yfir Íslendingnum í nokkra daga eftir að ráðherrann hefði bannað íslensku lögreglunni að eiga þar hlut að máli.
En hvað með það? Það sem Ögmundur bannaði, af einhverjum ástæðum, var að lögreglan tæki þátt í yfirheyrslunum. Fór hún ekki eftir þeim fyrirmælum yfirboðara síns, Ögmundar Jónassonar? Hvernig stendur á því að fréttamenn reyna nú að snúa málinu upp á ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara?
Og hvernig er með þennan Íslending sem var yfirheyrður? Er ekki rétt munað að það hafi komið fram í fyrstu fréttum, þó því sé ekki haldið til haga síðar, að hann vildi einmitt sjálfur vera í yfirheyrslunum? Ef svo er, hvert er þá vandamálið? Að bandarískir lögreglumenn tali hér við mann sem vill tala við þá?
Hvar fóru yfirheyrslurnar fram? Voru þær kannski í bandaríska sendiráðinu? Þar gilda bandarísk lög en ekki íslensk. Ef íslenskur ríkisborgari fór sjálfviljugur í erlent sendiráð og ræddi þar við ríkisborgara þess lands, hvert er þá vandamálið?
Í sendiráðum gilda lög sendiráðsríkisins, en ekki lög þess ríkis sem er allt í kringum sendiráðsbygginguna. Hverjir ættu að vita það betur en vinir og stuðningsmenn Wikileaks? Hvar heldur Julian Assange sig?