Vefþjóðviljinn 22. tbl. 17. árg.
Í tuttugu ár hafa Bandaríkjamenn verið neyddir til að brenna etanóli á bílum sínum undir formerkjum innlendrar og grænnar orku. Skattgreiðendur styrkja maísræktendur til etanólframleiðslu og reglur kveða á um íblöndun þess í bensín.
Þessi aðferð við framleiðslu á eldsneyti, ræktun á maís og vinnsla á etanóli úr honum, kæmi aldrei til greina án stuðnings skattgreiðenda og lagaboðs. Hún stæði einfaldlega ekki undir sér.
Þetta er raunar svo galin leið til þess að búa til orkugjafa að þegar allt er talið þarf á tíðum meiri orku til að búa þetta eldsneyti til en fæst úr því á endanum við bruna í bílvél. Það þarf ekki aðeins orku til plægja, sá og sækja uppskeruna heldur er framleiðsla á áburði orkufrek og svo auðvitað eimingin sjálf. Þessi orka er fengin með brennslu á olíu, kolum og gasi.
Etanól hefur enga sérstaka kosti sem eldsneyti á bifreiðar en ýmsa ókosti eins og að blandast fullkomlega við vatn sem gerir geymslu þess og flutning vandkvæðum háðan.
Ef mæta á lagaboði um notkun etanóls í eldsneyti árið 2015 munu 5,3 milljónir skeppa af maís hverfa út um púströr bifreiða í Bandaríkjunum. Þessi maís verður ekki nýttur í matvæli, hvorki beint á disk mannkyns né óbeint sem fóður handa búsmala.
Vart þarf að fjölyrða um áhrifin af þessu á matvælaverð.
Það virðist fremur regla að þegar starfsemi er kölluð „græn“ hefur hún bæði sóun á orku og fjármunum í för með sér.