Vefþjóðviljinn 21. tbl. 17. árg.
Sumir kaupa alltaf köttinn í sekknum. En eru alltaf jafn fáanlegir að kaupa næsta sekk, jafnvel þótt mjálmið úr honum sé ærandi.
Samkvæmt skoðanakönnunum vilja margir kjósendur fá „breytingar“. Nýtt fólk á þing. Ný vinnubrögð.
Svona eins og það séu „vinnubrögðin“ og „umræðuhefðin“ sem valda því að úrræði núverandi stjórnarflokka hafa ekki reynst vel.
Margir af þeim, sem vilja fá „ný vinnubrögð“ og vilja „losna við klækjastjórnmálin“, ætla að kjósa nýjasta flokkinn, „Bjarta framtíð“.
Það ágæta fólk er er því miður að fara að kaupa köttinn í sekknum.
Þeir, sem í vor fara og kjósa „Bjarta framtíð“, eru í raun að kjósa áframhald á tilveru núverandi ríkisstjórnar. Það er öll „breytingin“ sem þeir munu fá. Það eiga allir að geta séð að á Samfylkingunni og Bjartri framtíð er enginn munur. Tilgangurinn með nýju hliðar-Samfylkingarframboði er augljóslega að fá þann mikla fjölda, sem kaus Samfylkinguna síðast en getur ekki hugsað sér að gera það aftur, til þess að gera það samt. Þannig á að tryggja áframhaldandi Samfylkingarstjórn í landinu, rétt eins og í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem Dagur Eggertsson ræður því sem hann vill ráða, með þrjá borgarfulltrúa af af fimmtán.
Sá sem kýs „Bjarta framtíð“, í þeim tilgangi að fá fram „breytingar“ og „bætt vinnubrögð“ kaupir köttinn í sekknum. Hann er í raun ekki að kjósa neitt nýtt og hann mun hvorki fá breytingar né bætt vinnubrögð. Hann er eins og maður sem er búinn að fá nóg af Vífilfelli og ákveður því að hætta versla við fyrirtækið, fer svo út í sjoppu og segir afgreiðslumanninum að nú ætli hann sko ekki að kaupa þetta „kók“ lengur. „Láttu mig fá eina coke zero“, bætir hann svo við.
Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall syngja:
Það er bara einn flokkur á Íslandi, sem talar af einhverri skynsemi um mál: Samfylking!
Nú vilja þeir að fólk endurkjósi þá á þing. Nýtt vörumerki, ný slagorð, sömu menn. Lokaorðin í söngnum segja kannski allt sem segja þarf:
Og ef að Sollu vantar ráðherra, þá erum við tveir svo sem alveg til.