Vefþjóðviljinn 20. tbl. 17. árg.
Orðið tekjujöfnun er oft notað til að fegra skattheimtu og endurúthlutun stjórnmálamanna á skatttekjunum. Það er ekki að ástæðulausu.
Franski heimspekingurinn Bertrand de Jouvenel orðar það í bók sinni The Ethics of Redistribution:
Því nánar sem málið er skoðað því betur kemur í ljós að tekjujöfnun snýst ekki um að færa tekjur frá ríkum til fátækra heldur vald frá einstaklingunum til ríkisins.
Háir skattar draga úr þrótti atvinnulífsins þótt erfitt sé að meta nákvæmlega að hvaða marki það er. Bandaríski hagfræðingurinn Gordon Tullock brá mælistiku hagfræðinnar á tekjujöfnunartilburði ríkisvaldsins með þessu dæmi:
Gefum okkur að ríkistjórninni takist að bæta kjör þess fimmtungs sem er verst settur um 50% með því að skattleggja hina. Ef við gerum ráð fyrir að það hagvöxtur verði 3% í stað 5% vegna þessarar tekjujöfnunar munu tekjur fátæka fimmtungsins verða lægri eftir 15 ár en án tekjujöfnunar. Og ekki nóg með það, heldur mun fátæki fimmtungurinn halda áfram að tapa á þessu um alla eilífð.
Jóhann J. Ólafsson stórkaupmaður skrifar um „Endurúthlutunarþjóðfélagið“ í Morgunblaðið í gær. Þar segir hann:
Í okkar þjóðfélagi er helmingur tekna þjóðfélagsins greiddur til hins opinbera og endurúthlutað.
Slíkt þjóðfélag stenst ekki og hlýtur að hrynja fyrr eða síðar, vegna þess að útilokað er að hægt sé að úthluta svo miklu fé þannig að nógu stór hópur landsmanna verði ánægður með úthlutunina. Þvert á móti vex óánægjan stöðugt. Hið litla traust, 10%, sem menn bera til Alþingis er birtingamynd þessa. Fyrsta hrunið hefur þegar átt sér stað. Þjóðfélagið hefur alltaf verið að hrynja mismunandi mikið við hinar ýmsu gengisfellingar, sem koma með reglulegu millibili, þar sem eignir landsmanna og tekjur eru gerðar upptækar.
Og Jóhann skrifar áfram:
Endurúthlutunin ber meinið í sér. Flestir sem verða af fé sínu til hins opinbera vilja fá þetta fé til baka á einn eða annan hátt. En það er ekki hægt á ásættanlegan máta. Afleiðingarnar verða margvíslegar. a) Ein er sú að mikið fé verður eftir hjá hinu opinbera, sem tekur að safna eigum og minnkar þannig endurúthlutunina og ávöxtun fjár í þjóðfélaginu. b) Menn fara að „gera út á hið opinbera“ og stofna alls kyns samtök og félög með góðum og fallegum tilgangi, sem krefst opinbers fjár. Menn krefjast þess að hið opinbera greiði alls konar kostnað og leysi hvers manns vanda, sem þeir annars myndu oft leysa sjálfir. c) Kjósendur ógna frambjóðendum. d) Freisting manna til að draga undan skatti eykst. Á móti hækkar hið opinbera skattana, og eykur þannig freistingu til undanskota. Þá herðir hið opinbera reglur, eftirlit og refsingar. Við nálgumst lögregluríkið óðfluga og fátækt eykst.
Í úthlutunarþjóðfélaginu er sífellt reynt að leysa stærri vanda en þjóðfélagið ræður við með góðu móti. Afleiðingin er stóraukin skuldasöfnun, skattheimta, verðbólga og siðleysi.