Mánudagur 10. desember 2012

Vefþjóðviljinn 345. tbl. 16.árg.

Hversu lengi ætli fjölmiðlar eltist við vitleysisgang kratanna í norsku Nóbelsnefndinni?

Barack Obama hafði ekki setið heilt ár í embætti Bandaríkjaforseta þegar þeir norsku tilkynntu að hann hefði fengið friðarverðlaun Nóbels. Kom það flestum öðrum á óvart og ekki síst blessuðum Obama sem óttaðist víst að líta sjálfur út eins og sami kjáninn og nefndin. Obama hafði þá ekkert gert til friðar, bandaríski herinn var þá, eins og nú, enn í Afganistan og fangarnir í Guantanamo voru þar enn, rétt eins og þeir eru raunar enn í dag. Vestrænir vinstrimenn sögðu þó ekkert við því að Obama fengi verðlaunin, og höfðu þeir þó bæði Afganistan og Guantanamo á heilanum alveg þangað til Obama komst til valda og breytti hvorugu. Vestrænir vinstrimenn hafa varla minnst á Guantanamo síðustu fjögur árin, ef miðað er við ákefðina og hneykslunina í orðum þeirra árin á undan. 

Á dögunum bættu norsku kratarnir um betur og létu vini sína, Evrópusambandið, fá friðarverðlaunin. Því til rökstuðnings endurtekur hver krati eftir öðrum að Evrópusambandið hafi tryggt frið í Evrópu, sem áður hafi verið vígvöllur. En er svo víst að Evrópusambandið eða forverar þess hafi lagt þar mest af mörkum? Ætli það geti nú ekki verið að annað bandalag hafi skipt meira máli? Ætli Atlantshafsbandalagið hafi nú ekki skipt hér talsverðu máli? Hvenær hefur nokkur maður lagt niður vopn af ótta við Evrópusambandið? Fyrir utan forystu íslenskra vinstrigrænna að vísu.

Hvernig gekk nú í gömlu Júgóslavíu? Hvaðan voru þeir, friðargæsluliðarnir, sem stóðu aðgerðalausir þegar vopnlausir menn voru brytjaðir niður af fullkomnu hatri nágranna sinna? Og hvaða bandalag var það sem á endanum greip inn í, umfram hlutverk sitt, og knúði menn til friðar.

Ætli Torbjörn Jagland, formaður Nóbelsnefndarinnar og fyrrverandi formaður norskra krata, muni verðlauna það bandalag næst?