Vefþjóðviljinn 335. tbl. 16.árg.
Núverandi stjórnvöld eru þau skattaglöðustu sem sögur fara af hér á landi. Skattahækkanir kjörtímabilsins eru komnar yfir hundrað, svo segja má að stjórnarmeirihlutinn hækki skatta hálfsmánaðarlega allan ársins hring.
Yfirleitt er mikil ánægja og samstaða meðal stjórnarþingmanna með hækkanirnar. Þeim, sem kvarta yfir sífellt hækkandi gjöldum á eldsneyti, er sagt að fara að ferðast með strætisvögnum, því álögurnar verði ekki lækkaðar. Nú er hins vegar stutt í kosningar og lýðskrumsmenn í sérframboðum reyna því allt til að komast í fréttir eða slá sér upp hjá hagsmunahópum. Þannig hafa þeir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall tilkynnt að þeir muni ekki styðja umdeilda tillögu um hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu, og nefna meðal annars að ekki hafi verið haft „nægt samráð“ við þá sem skattahækkunin mun bitna á.
Daginn eftir var tilkynnt að nú skuli hækka gjöld á tóbak, langt umfram verðlagshækkun. Þá verður sérstaklega seilst í vasa neftóbaksmanna og neftóbaksgjald verður tvöfaldað. Þá verður fróðlegt að fylgjast með þeim kumpánum Róberti og Guðmundi og hvort þeim mun þykja nægt samráð hafa verið við reykingafólk.
Eða kannski bíða þeir eftir opinberum mótmælum, áður en þeir ákveða hvar þeir drepa næst niður fæti á ferð sinni milli fréttatímanna.