Vefþjóðviljinn 332. tbl. 16. árg.
Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn úr öllum flokkum gefið mismikinn ádrátt um að lagður verði sérstakur skattur á eigendur sparifjár og innkoman send rakleiðis til þeirra sem hafa þetta sama fé að láni. Skattur verði þannig lagður á eiganda réttinda í lífeyrissjóði og færður manni sem tekið hefur lán til íbúðarkaupa hjá sama sjóði.
Þessi skattur er þó jafnan ekki kallaður það sem hann er heldur „höfuðstólslækkun“, „lausn á skuldavanda heimilanna“ eða bara „leiðrétting“.
Tilefni þessarar kröfu er mikil hækkun verðtryggðra lána umfram húsnæðisverð á síðustu þremur árum. Ekkert heyrðist þó af kröfu um „höfuðstólshækkun“ þegar húsnæðisverð þaut fram úr öllum vísitölum á árunum 2004 til 2007.
Fjárfesting í húsnæði ber í sér áhættu, rétt eins og allar aðrar fjárfestingar. Það er ekkert hægt að gera sem kemur í veg fyrir það. Það væri beinlínis skaðlegt ef setja ætti fordæmi fyrir því að ríkið tryggi mönnum að eigið fé þeirra í húsnæði minnki aldrei. Við önnur tilefni hefur slíkt verið kallað að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið.
Að mestu leyti gerir þetta tal um „leiðréttingu“ fátt annað en að vekja falsvonir hjá fólki sem er í erfiðri stöðu, til að mynda hjá þeim sem keyptu sína fyrstu íbúð á árunum 2007 og 2008. Án efa hafa ýmsir í þessum hópi beðið með að færa til að mynda hluta lána sinna yfir í óverðtryggð lán eða aðrar aðgerðir í von um að skorið verði ofan af verðtryggðu lánunum með lagaboði.
Allt útlit er fyrir að þetta lýðskrum haldi áfram fram í apríl.