Fimmtudagur 8. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 313. tbl. 16. árg.

Hákarlinn etur þig í Kúbu norðursins og enginn vill lána okkur til virkjana ef þú samþykkir ekki Icesave ánauðina.
Hákarlinn etur þig í Kúbu norðursins og enginn vill lána okkur til virkjana ef þú samþykkir ekki Icesave ánauðina.

Í fréttum á dögunum var sagt frá því eins og ekkert væri eðlilegra að forseti Íslands hefði lagt hornstein að Búðarhálsvirkjun. Jafnframt kom fram í ræðu forstjóra Landsvirkjunar við það tækifæri að virkjunin yrði sett í gang á næsta ári. Sem er enn furðulegra.

Nú? Jú fyrir einu og hálfu ári taldi forstjórinn að fjármögnun virkjunarinnar gæti strandað á því að Íslendingar gengjust ekki undir þriðju útgáfuna af Icesave ánauðinni. Þessu mati forstjórans var slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins 7. febrúar á síðasta ári í sorglegri tilraun til að hrella landsmenn til undirgefni.

Við teljum að fjármögnun í gegnum fjármálastofnanir muni ganga eftir á næstu vikum ef tekst að ljúka Icesave-deilunni.

Út frá hagsmunum fyrirtækisins tel ég það afar jákvætt að leysa þetta Icesave-mál.

Já ef það hefði nú tekist að „ljúka“ Icesave deilunni væru Íslendingar búnir að greiða andvirði einnar Búðarhálsvirkjunar í vexti til Breta og Hollendinga. Allt í erlendum gjaldeyri.