Vefþjóðviljinn 312. tbl. 16. árg.
Í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins í gærkvöldi spurði Bogi Ágústsson bandarískan viðmælanda sinn hvort honum þætti ekki skrýtið að sú staða gæti komið upp að minnihluti atkvæða dygði til að tryggja meirihluta kjörmanna. Þannig gæti frambjóðandi orðið forseti án meirihluta atkvæða kjósenda. Svo bætti Bogi við: „Þetta yrði aldrei liðið í Evrópu“.
Viðmælandinn, með undrunarsvip, svaraði kurteislega að það þekktist nú reyndar í Evrópu að þingmeirihlutar og þar með ríkisstjórnir sætu í skjóli minnihluta atkvæða. Líklega hefur hann verið of kurteis til að nefna Bretland sem dæmi.
Svo mætti geta þess að í kosningum til norska stórþingsins haustið 2005 fékk hægriblokkin norska um tuttugu þúsund fleiri atkvæði en vinstriblokkin, sem þó náði meirihluta þingsæta vegna kosningareglnanna. Vinstriblokkin fékk með öðrum orðum fleiri þingmenn og færri atkvæði en hægriblokkin. Þau úrslit munu hafa vel liðin á ríkisfréttastofum Norðurlanda.
Eins og eðlilegt er leitar íslenska ríkissjónvarpið fyrst og fremst til kunnra vinstrimanna þegar tala þarf við menn sem eru sérfróðir um bandarísk stjórnmál. Mestur tíminn þessa kosninganótt fór að sjálfsögðu í að tala um vondu repúblíkanana, á milli þess að talað var um hve meingölluð öll framkvæmd kosninganna væri. Nú liggur hins vegar fyrir að niðurstaða kosninganna var eins og þátttakendur í kosningasjónvarpi ríkisútvarpsins vonuðust eftir og það þýðir að hinir meintu gallar á framkvæmd kosninganna eru ekki lengur fréttaefni. Ef kosningarnar hefðu farið á hinn veginn þá gæti verið að áhorfendur fengju fleiri frásagnir Silju Báru Ómarsdóttur af glímum vinkvenna hennar við fláráðar kosningavélar.
Silja Bára kom í það minnsta í tvígang í sjónvarpið til að flytja áhorfendum sögur af vinkonum sínum og viðureignum þeirra við kosningavélar sem ekki virkuðu eins og skyldi. Hér á við það sem Richard Posner sagði af öðru tilefni: „…in a nation of 260 Million people, anecdotes are a weak form of evidence.“
En dæmisögur Silju Báru eru fréttir hjá ríkissjónvarpinu.