Laugardagur 3. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 308. tbl. 16. árg.

Á AMX í dag er vakin athygli á því að Egill Helgason hafi upplýst menn um að samkvæmt alþjóðlegum samanburði, velmegunavísitölunni, séu fjórtan ríki fyrir ofan Ísland og af þeim séu átta Evrópusambandsríki. Agli láðist hins vegar að geta þess að ESB ríkin eru fleiri en átta og þar af leiðandi mikill meirihluti þeirra fyrir neðan Ísland.

Alls kyns alþjóðlegur samanburður er annars orðinn mikill útvegur. „Gögnin“ sem menn styðjast við í þessum efnum eru flest huglæg, lítt eða illa mælanleg. Þær stofnanir sem leggja mat á hlutina hafa jafnan mikinn áhuga á því sem þær eru að bera saman milli landa.

Hvernig ætli líf hirðingja í Norður-Afríku eða Mongólíu sé metið í þessum samanburði? Þeir hitta ef til vill ekki opinberan embættismann svo misserum og árum skiptir og hafa ekki skilað skýrslu um skatta eða aðra hagi sína síðan það bar við að Ágústus skrásetti mannskapinn. Hvað ætli framlag þeirra til vergrar landsframleiðslu sé talið, hamingja þeirra, frelsi og réttaröryggi? Hvernig ætli Transparency Institute meti spillingu þeirra, sem stofnunin þykist mæla upp á hundraðshluta?

Hvernig bera menn saman þjóðfélög þar sem atvinnuþátttaka er mjög mikil við þjóðfélög þar sem konur eða karlar sinna sínu heima við og einbeita sér að rekstri elstu og farsælustu einkafyrirtækja sögunnar, heimilinu?