Föstudagur 2. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 307. tbl. 16. árg.

Íbúðarhús og útgerð. Er allur munur á afskriftum, niðurfellingum og leiðréttingum skulda eftir því hvort menn eru á landi eða sjó?
Íbúðarhús og útgerð. Er allur munur á afskriftum, niðurfellingum og leiðréttingum skulda eftir því hvort menn eru á landi eða sjó?

Það var hvorki meira né minna en fyrsta frétt Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að útgerðarfyrirtæki á Austurlandi hefði keypt sér aflaheimildir fyrir tvo milljarða króna en fyrir þremur árum hefðu um tveir og hálfur milljarður króna af skuldum fyrirtækisins verið „afskrifaður“.

Ekki var útskýrt sérstaklega hvað væri fréttnæmt við þetta, svo ætla verður að fréttamaðurinn og fréttastjórinn telji einfaldlega óeðlilegt að fyrirtæki sem „fái afskrifað“ geti fjárfest nokkrum árum síðar. Ef menn hafi ekki getað greitt skuldir sínar að fullu, þá geti ekki verið eðlilegt að þeir geti „keypt kvóta“ þremur árum síðar.

Við þetta er margt að athuga.

Aflaheimildirnar sem fyrirtækið hefur keypt, eru ekki hugsaðar til þess að hanga uppi á vegg til skrauts. Þær eru hugsaðar til að afla fyrirtækinu tekna. Tekna sem nýst geta til að greiða skuldir og halda áfram rekstri.

Hvað ef banki afskrifaði hluta af skuldum leigubifreiðastjóra, en þremur árum síðar kæmust fréttamenn Ríkisútvarpsins að því að þessi stórspillti bílstjóri hefði síðustu mánuði keypt sér bensín fyrir hundruð þúsunda? Ætli þá yrði gerð samskonar frétt? Ef hann getur keypt sér bensín þessi kall, af hverju borgar hann þá ekki bara skuldirnar? Og ef hann nú endurnýjar einhvern tíma bílinn sjálfan, nokkrum árum eftir „afskrift“, hvað myndu fréttamenn Ríkisútvarpsins gera þá?

Ætli það geti nú ekki verið að fyrirtækið hafi líka varið peningum í margt annað en kaup á aflaheimilum þau þrjú ár sem eru liðin frá því eitthvað af skuldum þess var „afskrifað“? Kannski greitt hundruð milljóna í laun til starfsfólks. Ætli það verði næsta fyrsta-frétt Ríkisútvarpsins? „Trésmiðja Torfa greiddi starfsfólki sínu fjörutíu milljónir króna í laun á síðasta ári, en tvö og hálft ár eru liðin síðan tuttugu milljónir króna af skuldum Trésmiðjunnar voru afskrifaðar. Torfi vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins í dag.“

Auðvitað dytti engum slíkt í hug. En sumir fjölmiðlamenn virðast ekki vera með sjálfum sér ef sjávarútvegurinn er annars vegar. 

En gaman verður þegar fréttamenn Ríkisútvarpsins halda áfram á þessari braut: Hjónin Njáll Þorgeirsson bóndi og Bergþóra Skarphéðinsdóttir fóru í sumar í tveggja vikna ferð til Kanarí. Í Fríhöfninni keypti Bergþóra föt á syni þeirra en Njáll garðyrkjuáhöld. Fyrir þremur árum var húsnæðislán þeirra lækkað um milljón samkvæmt 110% leiðinni.