Vefþjóðviljinn 299. tbl. 16. árg.
Illugi Jökulsson er einn hinna 25 sem Jóhanna og Steingrímur skipuðu í svonefnt stjórnlagaráð. Illugi hefur um áratugi haft ótakmarkaðan aðgang að hljóðnemum Ríkisútvarpsins þar sem hann hefur bunað út skoðunum sínum um menn og málefni. Svo hagvanur var Illugi á stofnuninni að þætti hans var gefið nafnið Frjálsar hendur. Hann tók sér að vísu hlé frá nýtingu þessara hlunninda árið 2005 til að verða fyrsti útvarpsstjóri Talstöðvarinnar, sem var ný stöð á vegum hins þjóðkunna félags Baugs.
Á föstudaginn leyfði Andríki sér að birta eftirfarandi tilkynningu í þessu sama Ríkisútvarpi og Illugi hafði svo lengi til afnota fyrir sínar prívatskoðanir.
Tillögur stjórnlagaráðs auðvelda ríkisstjórninni að koma Íslandi í Evrópusambandið. Segjum nei. Andríki.
Fyrir upplestur Ríkisútvarpsins á hverju orði greiddi Andríki uppsett verð.
Þá bar svo við að Illugi Jökulsson skrifaði pistilinn „Rangar auglýsingar“ á Eyjuna. Þar hélt hann því fram að tilkynning Andríkis væri efnislega röng. Það er reyndar rangt hjá honum en allt í góðu með það.
En svo kom þetta frá manninum sem lengst hefur dvalið í hljóðstofum Ríkisútvarpsins að Gerði G. og Jóni Múla frátöldum:
Og undarlegt af Ríkisútvarpinu að leyfa auglýsingar sem augljóslega eru rangar. Því þetta er ekkert túlkunaratriði, þetta er bara rangt.
Er hinn hái herra í stjórnlagaráðinu ekki farinn að ofmetnast aðeins þegar hann vill meina litlu áhugamannafélagi að kynna sjónarmið í einni málsgrein í Ríkisútvarpinu? Útvarpinu sem hann um árabil notaði sjálfur eins og barborð til að láta allt flakka yfir?