Vefþjóðviljinn 293. tbl. 16. árg.
Hvað ætli menn gerðu ef þeir fyndu tæplega tvöhundruð ára gamla dagbók Jónasar Hallgrímssonar og sæu þar færslu um að hann hugsaði sér að endurbæta Gunnarshólma einhvern tíma í framtíðinni? Ætli þeir myndu safna saman hópi manna, misjafnlega hagmæltum og sumum alls ekki, og segja þeim að byrja nú þegar að yrkja, það væri til skammar hvað hefði tekið langan tíma að endurbæta ljóðið? Og þeim, sem myndu svo benda á gallana við „endurbæturnar“, yrði svo bara svarað með upplestri úr dagbók Jónasar. Hann ætlaði alltaf að laga ljóðið seinna, sko.
Þeir sem berjast nú fyrir því að stjórnarskrá lýðveldisins verði skipt út fyrir hugverk þeirra Gísla Tryggvasonar, Eiríks Bergmanns Einarssonar, Þórhildar Þorleifsdóttur og annarra ókosinna fulltrúa í „stjórnlagaráði“, beita nú þeim rökum að við lýðveldisstofnun hafi verið talað um að stjórnarskráin yrði endurskoðuð síðar. Þess vegna eigi menn að kyngja „endurskoðuninni“ sem stjórnlagaráðsmennirnir hafi samið. Fyrir sjötíu árum var sagt að einhvern tímann yrði endurskoðað, hér er endurskoðuð útgáfa, innleiðið hana strax sem stjórnarskrá og hendið hinni.
Við þessar kenningar er ýmislegt að athuga.
Gerðar hafa verið veigamiklar breytingar á stjórnarskránni frá því hún tók gildi. Mikilvægastar eru miklar breytingar sem gerðar voru á mannréttindakafla hennar. Þá hefur kjördæmaskipan verið breytt og deildaskipting alþingis afnumin, svo dæmi séu tekin. Öðru hafa menn hins vegar ekki breytt. Það var aldrei talað um að kollvarpa stjórnarskránni, heldur eingöngu að endurskoða hana. Í því felst að breyta því sem menn telja raunverulega langtímaþörf að breyta í ljósi reynslunnar, en láta annað óbreytt. Það hafa menn einmitt gert – og yfirleitt í mikilli sátt.
Og það var aldrei talað um að stefnt skyldi að því að endurskoða stjórnarskrána í bullandi ágreiningi eftir stórfurðuleg handarbakavinnubrögð, ógilda kosningu til óskiljanlegs stjórnlagaþings sem fyrst og fremst yrði skipað frægðarmennum af höfuðborgarsvæðinu, sem flest hefðu unnið sér annað en stjórnskipunarþekkingu til frægðar.
Stjórnarskrártillaga „stjórnlagaráðs“ er langloka, full af ákvæðum sem ekkert erindi eiga í stjórnarskrá en myndu hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenska löggjöf. Fyrir tillögunni hafa fá gagnleg rök heyrst. Núgildandi stjórnarskrá hefur hins vegar reynst merkilega vel. Og það, að fyrir sjötíu árum hafi verið haft á orði að stjórnarskrá lýðveldisins yrði endurskoðuð síðar, er ekki röksemd fyrir þeirri tillögu sem nú liggur fyrir.