Vefþjóðviljinn 292. tbl. 16. árg.
Það er margt gott í blöðunum um þessar mundir enda mörgum sem blöskrar atlagan að stjórnarskrá lýðveldisins. Þótt ekki væri nema fyrir þær sakir að reynt er að fara í kringum ákvæði stjórnarskrárinnar um endurskoðun hennar og stjórnarliðar á þingi lítilsvirtu niðurstöðu hæstaréttar um gildi kosninga til stjórnlagaþings.
Davíð Þorláksson héraðsdómslögmaður var inntur eftir því í Fréttablaðinu í gær hvort ástæða væri til að setja ákvæði um þjóðareign á auðlindum sem ekki eru þegar í einkaeign í stjórnarskrá.
Í fyrsta lagi þá er það samdóma álit lögfræðinga að þjóð geti ekki átt eignir. Auðlindir geta annaðhvort verið í eigu ríkisins eða einkaaðila. Sé það vilji fólks að ríkið eigi allar auðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, þá er miklu eðlilegra að segja það berum orðum, og vera ekki að blekkja fólk með því að tala um þjóðareign.
Í öðru lagi er ekki verið að nýta eða rannsaka neinar auðlindir á íslensku forráðasvæði í dag sem ekki eru annaðhvort í eigu ríkisins eða einkaaðila. Þar sem auðlindir í einkaeigu eru sérstaklega undanskyldar í spurningunni þá myndi ákvæðið ekki taka til neinna auðlinda í dag. Maður spyr sig því hver tilgangur þess sé.
Er nema von að spurt sé.
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur skrifaði grein á Vísi í gær þar sem hann veltir fyrir sér afleiðingum þess að aukinn meirihluti alþingis geti í skyndi breytt stjórnarskráinni. En það er ein af mörgum tillögum stjórnlagaráðs. Tillaga stjórnlagaráðs er svohljóðandi:
Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.
Um þetta segir Haraldur:
Undir lok stjórnarskrárdraganna kemur í ljós að hægt á að vera að breyta stjórnarskrá með einföldum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnvel án þjóðaratkvæðis ef fimm sjöttu hlutar Alþingis standa að breytingunni. Nokkuð auðveldlega má í hvelli framselja ríkisvald úr landi með einföldum meirihluta Alþingis og þjóðaratkvæði sem sömu stjórnvöld framkvæma. Þegar valdið er farið burt er hætt við að lítið geti komið fyrir fögur orð í öðrum köflum stjórnarskrárinnar. Fyrirvari um að valdaframsal skuli vera afturkræft er lítils virði, því þótt svo kunni að vera í orði kveðnu getur hæglega orðið óframkvæmanlegt að endurheimta fullveldi einhliða. Þetta atriði eitt og sér er svo veigamikið að óháð öðrum liðum stjórnarskrárdraganna er ekki annað hægt en að neita því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Þótt ekki væri nema af þessari einu ástæðu, að aukinn meirihluti alþingis geti gert það sem honum sýnist við stjórnarskrána, verðskulda tillögur stjórnlagaráð algera höfnun í könnuninni á laugardaginn.
Í Morgunblaðinu í gær vakti Arnar Sigurðsson, sem starfar á fjármálamarkaði, athygli á öðru furðuverki sem fer fram samhliða dýru skoðanakönnuninni um tillögur stjórnlagaráðs.
Nú styttist brátt í tvenns konar kosningar sem hvorar tveggja flokkast sem óábyrgar gagnvart samfélaginu þó með mismunandi hætti sé. Stjórnarskrárkosningin er ekki kosning heldur fer nær því að flokkast sem skoðanakönnun um eitthvað sem stjórnmálamenn geta svo túlkað hvernig sem þeim hentar, m.a. til afnáms eignarréttar. Hin kosningin er um sameiningu Garðabæjar og Álftaness undir fyrirsögninni okkarval.is sem er kostuð og gerð af orkufullum embættismönnum bæjarfélaganna auk herfylkingar áróðurs- og auglýsingasmiða. Á heimasíðunni eru tilteknir ótal kostir en ekki minnst á einn einasta ókost vegna sameiningarinnar. Fyrirspurnum er varða fjárhagsleg atriði er hinsvegar ekki svarað.
Fyrirsögn kosningarinnar er reyndar einstaklega ósvífin ef haft er í huga að með samningnum fylgir 1.200 milljóna meðgjöf frá íbúum annarra sveitarfélaga sem reyndar hafa ekkert »val« um sameininguna. Ástæða þessarar meðgjafar er að í ljós hefur komið að nokkrir fjármagnseigendur, m.a. Arion banki, lánuðu Álftanesi í senn glannalega og veðlaust sem sveitarfélagið gat ekki með nokkru móti greitt og fjármagnseigendur með engu móti innheimt. Í stað þess að láta slíka lánveitendur afskrifa sín lán, taldi Ögmundur Jónasson farsælast að seilast ofan í buddur almennings sem þó fer jafnvel ekki einu sinni í sund á Álftanesi.
Já hvers vegna fá aðeins íbúar Garðabæjar og Álftaness að kjósa um þennan ríkisstyrk til glannanna sem lánuðu Álftanesi? Er það nýjasta útgáfan af beinu lýðræði að aðeins þeir sem eru líklegastir til að samþykkja tillögur stjórnvalda séu spurðir?