Helgarsprokið 7. október 2012

Vefþjóðviljinn 281. tbl. 16. árg.

Í síðasta mánuði sagði Ríkisútvarpið Íslendingum stutta frétt frá Chile: 

Þúsundir manna gengu um götur Santiago, höfuðborgar Chile, í gær og minntust þeirra sem myrtir voru í valdatíð herforingjastjórnar Augustos Pinochets. Ellefta september verða 39 ár frá því Pinochet og félagar rændu völdum með fulltingi Bandaríkjastjórnar. Pinochet réð lögum og lofum í Chile frá 1973-1990. Að minnsta kosti 3.200 manns voru myrtir í valdatíð hans, flestir skömmu eftir valdaránið. 37 þúsund sættu ofbeldi og örkumlum í varðhaldi. Um 200 þúsund manns flýðu land, eða voru reknir í útlegð.

Á íslenska Ríkisútvarpinu er veruleg slagsíða. Hún er í eina átt – í átt að lífssýn starfsmanna þess. Með því er ekki átt við að pólitísk slagsíða sé á hverjum einasta þætti, að í morgunleikfiminni sé lögð meiri áhersla á að styrkja tábergið á vinstri en hægri fæti, en þar sem er slagsíða er hún undantekningarlítið til vinstri. 

Það eru indælu og slagsíðulausu þættirnir sem gera starfsmönnum Ríkisútvarpsins mögulegt að vera með slagsíðu-þættina. Morgunleikfimi, Sagnaslóð, Stefnumót, Gullna flugan og aðrir slíkir þættir, hvort sem fjöldinn hlustar nú reglulega á þá eða ekki, gefa Ríkisútvarpinu hinn sígilda og heimilislega blæ þess sem alltaf má treysta, þótt hann reyni kannski ekki að vera æsispennandi alla daga. Annað dæmi er morgunþulan frá veðurstofunni, Mánárbakki, vestnorðvestan tveir, gráð, hiti eitt stig. Og þess trausts njóta svo hinir þættirnir, þar sem slagsíðan er öll til vinstri. Að ógleymdri fréttastofunni, sem raunar er með sérstakan stuttan dagskrárlið , síðasta lag fyrir fréttir, til að koma fólki í réttar stellingar fyrir hádegisfréttirnar.

Auðvitað er það ekki svo að fréttamenn eða dagskrárgerðarmenn setjist niður á morgnana og segi hver við annan: jæja, hvernig eigum við nú í dag að misnota aðstöðu okkar, ýta undir skoðanabræður, koma höggi á andstæðingana og rugla umræðuna? Skýringin á slagsíðu Ríkisútvarpsins er vafalaust oft sú, að einstakir starfsmenn treysta einfaldlega eigin lífssýn, yfirmenn þeirra deila henni gjarnan, og þegar hópurinn er einsleitur verður útkoman sú sem hún er.

Þáttastjórnandi sest niður og veltir fyrir sér hverja hann eigi að fá í næsta þátt og hvað þar eigi að ræða. Hann spyr sig hver séu helstu mál dagsins. Svo svarar hann samkvæmt eigin sýn á tilveruna. Vinstrimanninum finnst þetta eða hitt sem verið hefur í fréttum undanfarið vera geysilega merkilegt mál. Þá er það tekið fyrir í þættinum. Og hverja á að fá til að ræða það mál, spyr hann sig næst. Jú, honum finnst þeir Gísli, Eiríkur og Helgi hafa sagt margt merkilegt um þau mál á síðustu vikum. Tala við þá. Þáttastjórnandinn er ekki að hugsa um að vera hlutdrægur, hann vill fá í þáttinn menn sem hafa vit á hlutunum. Þess vegna fær hann menn sem hafa sagt eitthvað sem honum fannst gáfulegt. Af hverju ætti hann að kalla á einhvern sem hefur verið að bulla um málið? Að mati stjórnandans.

Enn líklegra er þó að stjórnandinn geri annað. Hann fái einhvern einn í umfangsmikið viðtal. Einhvern sem hefur, að mati stjórnandans, sagt margt skynsamlegt. Þorvaldur Gylfason er nú alltaf snjall. Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur, veit hún ekki allt um stjórnsýsluna? Er stjórnsýslufræði ekki mikil vísindagrein? Svo þarf að fá einhvern með hressilegar skoðanir til að hrista upp í þessu, Jónas Kristjánsson er nú alltaf ögrandi. En auðvitað verður að fá einhverja yfirvegun í lokin, er ekki langt síðan talað hefur verið við Jón Ólafsson á Bifröst?

Og af því að stjórnandinn telur þetta allt mjög merkilegt fólk, þá leyfir hann því að tala óáreittu en tekur undir flest sem þau segja. 

Er eitthvað að þessu, er ekki bara ágætt að gestir í sjónvarpsþáttum fái að útskýra mál sitt vandlega án þess að sífellt sé verið að grípa fram í? Nei, gott og vel, en ef menn ætla að hafa þetta svona, þá verða menn að gæta þess að þáttastjórnendur, bæði í útvarpi og sjónvarpi, séu fjölbreyttur hópur og raunverulega úr fleiri en einni átt.

Í upphafi var sagt frá stuttri frétt Ríkisútvarpsins um göngu sem fram fór í Chile, en fréttamanni þótti hún greinilega eiga erindi við íslenska hlustendur. Var nú eitthvað að þeirri frétt, varla ætla menn að neita því að Pinochet hafi verið harðstjóri? spyr nú einhver. Og nei, það er engin ástæða til að gera lítið úr því að Pinochet stjórnaði af hörku þegar hann var tekinn við völdum. Það er heldur engin ástæða til að ætla að fréttamaðurinn hafi ætlað sér að gefa á nokkurn hátt ranga mynd af málefnum í Chile og fréttin er öll hin sakleysislegasta. En hún má samt vera dæmi um saklausa frétt, sem litlu skiptir og er vafalaust sögð af heilindum, en er þó brennd því sama marki og svo margt hjá íslenska Ríkisútvarpinu.

Fyrir nokkru kom út mjög fróðleg bók, Kommúnisminn, eftir Richard Pipes, fyrrverandi sagnfræðiprófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, og segir þar eitt og annað um valdaskiptin í Chile. Í forsetakosningunum árið 1970 urðu þrír frambjóðendur nær hnífjafnir. Salvador Allende, studdur af sósíalistum og kommúnistum, fékk 36,3 % atkvæða en frambjóðandi hægrimanna hlaut 34,9  

Þar sem engum frambjóðanda tókst að tryggja sér hreinan meirihluta var kosningunni vísað til þingsins. Á næstu tveimur mánuðum komst Allende að samkomulagi við kristilega demókrata sem samþykktu að styðja framboð hans ef hann gengi að fáeinum skilyrðum sem skuldbundu hann til að halda stjórnarskrá Chile í heiðri, svo sem að virða lög og fjölræði í stjórnmálum. Skilyrðunum var lýst í lögum sem þjóðþingið samþykkti og höfðu yfirskriftina Lög um stjórnarskrártryggingar og þau gerðu Allende kleift að setjast í forsetastól.

Seta Allendes á valdastóli var þannig háð kvöðum. Hann reyndi þó eftir fremsta megni að ná fram róttækum markmiðum sínum. Námur, bankar og flestar framleiðslugreinar voru þjóðnýttar, og það með tilskipunum, fram hjá þinginu. Launahækkanir voru fjármagnaðar með seðlaprentun og verðbólga komst í 300% á ársgrundvelli. Ríkisstjórn Allendes lét sér ekki nægja að þjóðnýta mikilvægar atvinnugreinar, hún lét viðgangast og hvatti til þess að land yrði tekið af eigendum þess. Af því leiddi vitanlega að matvælaframleiðsla minnkaði mjög og þegar stjórn Allendes féll voru aðeins til í landinu hveitibirgðir til þriggja daga neyslu. Mótmæli og verkföll jukust stöðugt og lömuðu að lokum allar samgöngur og mikinn hluta efnahagslífsins.

Í ágústmánuði árið 1973 samþykkti fulltrúadeild þingsins í Chile, með 81 atkvæði gegn 45, að Allende hefði „brotið stjórnarskrána með því að ræna völdum þingsins, skeyta engu um landslög og takmarka málfrelsi“, svo notuð sé endursögn Pipes. Fulltrúadeild þingsins fór svo fram á það við chileska herinn að hann endurreisti lög landsins og í samræmi við skipun þingsins þvingaði herinn Allende frá völdum.

En þegar íslenska Ríkisútvarpið segir frétt frá Chile þá er látið nægja að segja að „Pinochet og félagar rændu völdum með fulltingi Bandaríkjastjórnar.“ Auðvitað ætlast enginn til þess að allur aðdragandinn sé nákvæmlega rakinn í stuttri frétt, en er ekki svolítill munur á því að her í landi fylgi eftir samþykkt þings landsins eða að einhverjir „félagar“ ræni völdum „með fulltingi Bandaríkjastjórnar“? Og auðvitað er ekki verið að halda uppi neinum vörnum fyrir stjórnartíð Pinochets þó bent sé á annars vegar aðdraganda hennar og hins vegar þá mynd sem fréttastofa íslenska Ríkisútvarpsins dregur upp af honum.

Engin ástæða er til að fréttamaðurinn hafi ætlað sér að draga upp villandi mynd af málefnum í Chile. Hann sagði einfaldlega frá málum miðað við það sem hann hefur sjálfur heyrt og lesið. Og ætli flestir hafi ekki einhvers staðar lesið eða heyrt talað í þessa sömu veru? Og kannski færri heyrt að þingið í Chile hafi í raun gert einhverja samþykkt. 

Bók Richards Pipes, Kommúnisminn, fæst í Bóksölu Andríkis. Ætli hún hafi verið mikið lesin á fréttastofu Ríkisútvarpsins?