Laugardagur 6. október 2012

Vefþjóðviljinn 280. tbl. 16. árg.

Hausthefti tímaritsins Þjóðmála er nýkomið út og kennir þar margra grasa eins og venjulega. Meðal greina er ádrepa Ragnhildar Kolku um núverandi borgarstjóra í Reykjavík, Jón Gnarr Kristinsson, og meirihlutann sem hann leiðir.

Á síðasta kjörtímabili forðaðist Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn öll átök við vinstrimenn eins og hann gat, og kallaði það ný vinnubrögð. Í síðustu borgarstjórnarkosningum beið Sjálfstæðisflokkurinn svo afhroð og fékk verstu borgarstjórnarkosningu í sögu sinni, við aðstæður sem vissulega voru óvenjulegar. Flokkurinn fékk nú aðeins fimm borgarfulltrúa, en lýsti því að vísu sem miklum sigri. 

Af öðru áhugaverðu efni má sérstaklega nefna grein Björns Bjarnasonar, þar sem hann veltir fyrir sér hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki vopnum sínum með meira afgerandi hætti. Þegar horft er til núverandi ríkisstjórnar og hversu illa hún hefur haldið á málum allt kjörtímabilið, þá má undrum sæta að stjórnarandstaðan njóti ekki meira fylgis en hún gerir í könnunum. Ein mikilvægasta skýringin er nær alger skortur á baráttugleði meðal kjörinna fulltrúa stjórnarandstöðunnar á þingi og í sveitarstjórnum, en þar endast menn sjaldan nema örfáa daga til nokkurrar baráttu sem máli skiptir. Og hugmyndaleysið virðist vera algert í baráttunni. Stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins, hvort sem er á þingi eða í sveitarstjórnum, hefur engum árangri skilað undanfarin ár, og má vart á milli sjá hvar baráttuhræðslan og árangursleysið hefur verið meira. 

Óhætt er að hvetja menn til að lesa grein Björns Bjarnasonar af athygli, en þar er víða komið við.

Af öðru efni Þjóðmála má sérstaklega nefna frásögn Ásgeirs Jóhannessonar lögfræðings af nýlegum málfundi um stöðu hægristefnunnar. Þar rekur Ásgeir erindi þeirra Gunnlaugs JónssonarHannesar H. GissurarsonarÓla Björns Kárasonar, Jakobs F. Ásgeirssonar og Sigríðar Á. Andersen. Þar eru áhugaverð sjónarmið úti um allt og kærkomin hvíld frá froðunni sem orðin er svo algeng í nútímastjórnmálum.

Loks má vekja athygli á tveimur bókadómum þar sem þeir Atli Harðarson skólameistari og Geir Ágústsson verkfræðingur fjalla um nýlega doðranta sem íslenskir vinstrimenn hafa skrifað gegn frjálshyggju og því sem þeir telja frjálshyggju. Virðast bókadómarnir mun skynsamlegri en bækurnar.

Áskrift að Þjóðmálum, sem og stök hefti frá upphafi, má kaupa í Bóksölu Andríkis.