Föstudagur 5. október 2012

Vefþjóðviljinn 279. tbl. 16. árg.

Já-Áfram-Sterkari-Saman-Sjálfstæðir-Sammála-Evrópusinnar vilja auka gæði umræðunnar. Er það að undra eftir að þeir auglýstu svona til að hræða Íslendinga í Icesave-ánauðina?
Já-Áfram-Sterkari-Saman-Sjálfstæðir-Sammála-Evrópusinnar vilja auka gæði umræðunnar. Er það að undra eftir að þeir auglýstu svona til að hræða Íslendinga í Icesave-ánauðina?

Í vikunni kom saman hópur höfðingja og sendi landsmönnum yfirlýsingu sína. Til marks um mikilvægi hennar var tekið fram fundarmenn kæmu úr flestum stjórnmálaflokkanna.

Yfirlýsingin var fyrst og fremst ákall um að haldið skyldi áfram að reyna að semja Ísland inn í Evrópusambandið, en við það erindi höfðingjanna var svo hnýtt almennri froðu og frösum um bætta umræðuhefð, ný vinnubrögð og fleira slíkt, sem er svo algengt í máli fólks sem hefur í raun ekkert fram að færa.

En fundurinn var í raun mjög merkilegur og fréttnæmur. Enda sló Ríkisútvarpið honum upp sem fyrstu frétt.

Og hvað var merkilegt við fundinn? Það var það að við hann var ekkert merkilegt. 

Þetta reyndist sami hópurinn og hefur undanfarin ár verið kallaður saman undir ýmsum nöfnum og ályktar og berst fyrir almennri undirgefni Íslands við elítuna í Brussel. Einn daginn heita þeir Áfram og annan daginn Já Ísland. Evrópusamtökin. Sterkari saman. Sjálfstæðir Evrópumenn. Stundum heita þeir Fjörutíu frammámenn og stundum Hákarlarnir. En erindið er alltaf það sama: Hlustið á okkur höfðingjana sem vitum hvað landinu er fyrir bestu. Gefist upp. Hættiði að verja fullveldið ykkar. Gangið í Evrópusambandið. Skrifið undir Icesave. 

Það fréttnæma við fundinn var að þetta voru alveg þeir sömu og alltaf áður. 

En auðvitað var sú staðreynd, að ekkert nýtt var við hópinn, ekki það sem Ríkisútvarpinu þótti fréttnæmast við fundinn. Ríkisútvarpinu þótti einfaldlega vera mjög fréttnæmt að Benedikt Jóhannesson, Gylfi Arnbjörnsson, Vilhjálmur Egilsson, Margrét Kristmannsdóttir og fleiri óvæntir menn hefðu skyndilega lýst því yfir að það eigi að halda áfram viðræðum um aðild að Evrópusambandinu.

Næst mun Ríkisútvarpið líklega slá því upp að Bjarni Felixson sé farinn að hallast að KR. Er það ekki reiðarslag fyrir Val?