Fimmtudagur 4. október 2012

Vefþjóðviljinn 278. tbl. 16. árg.

Stefán Ólafsson vitnar í rit sem hann virðist aldrei hafa lesið.
Stefán Ólafsson vitnar í rit sem hann virðist aldrei hafa lesið.

Stefán Ólafsson félagshyggjuprófessor virðist eiga bágt með að skrifa eins og eina grein án þess að reyna að villa um fyrir fólki. Í nýjustu grein sinni á Eyjunni segir hann:

Samtök atvinnulífsins hafa kynnt nýjar tillögur sínar um breytingar á samkeppnislögum. Samtökin vilja veikja framkvæmd laganna, veikja Samkeppniseftirlitið og fá meira frelsi á markaðinn.

Fræg er lýsing Adams Smith í bókinni Auðlegð þjóðanna á því hvernig fundir kaupahéðna snúast gjarnan upp í tal um samráð gegn hagsmunum almennings.

Og svo bætir Stefán við: 

Samtök atvinnulífsins vilja frelsi án aðhalds og gefa þannig lítið fyrir boðskap Adams Smiths. Samt hæla þeir honum á tillidögum[sic]…

En hvað sagði Adam Smith nákvæmlega í Auðlegð þjóðanna?

People of the same trade seldom meet together, even for the merriment and diversion, but the conversation ends in a conspiracy against the public, or in some contrivance to raise prices. It is impossible indeed to prevent such meetings, by any law which either could be executed, or would be consistent with liberty and justice. But though the law cannot hinder the people of the same trade from sometimes assembling together, it ought to do nothing to facilitate such assemblies; much less render them necessary.

Smith sagði einmitt að ríkið ætti að láta þessi mál í friði. Afskipti af þeim gerðu illt verra, væru óraunhæf og gengju gegn frelsi og réttlæti. Hvorki meira né minna. Það er því hrein fjarstæða sem Stefán heldur fram að Smith hafi með þessum orðum hvatt til aukinna ríkisafskipta. Þvert á móti. 

Veröldin er ekki fullkomin. Frjáls keppni fyrirtækja á markaði er það ekki heldur. En hún er það skásta sem í boði er.

Stefán Ólafsson hefur augljóslega ekki lesið það sem hann er að vitna í. Nema hann kjósi að fara vísvitandi rangt með.