Vefþjóðviljinn 266. tbl. 16. árg.
Ungir vinstrigrænir á höfuðborgarsvæðinu héldu aðalfund á dögunum. Fundarmenn sáu ástæðu til að senda frá sér fjórar ályktanir, og þarf engum að koma á óvart þó mönnum liggi mikið á hjarta á örlagatímum.
Meðal þess sem vinstrigrænum hlýtur að vera hugstætt er að flokkur þeirra situr í ríkisstjórn sem hefur sótt um aðild Íslands að Evrópusambandinu, flokkur þeirra situr í ríkisstjórn sem ítrekað ákvað að beita ekki neitunarvaldi Íslands gegn loftárásum NATO á Líbýu, og flokkur þeirra situr í ríkisstjórn sem stendur fyrir niðurskurði á spítölum en eyðir á sama tíma milljarði króna í árásir á stjórnarskrá landsins.
En ekkert af þessu þótti ungum vinstrigrænum tilefni til ályktunar.
Þess í stað ályktuðu þeir um fjögur brýn mál.
Ungir vinstrigrænir samþykktu ályktun þar sem þeir fögnuðu því að nú væri loks „útlit fyrir að Félag múslima á Íslandi geti reist mosku í Reykjavík“ , og var tekið fram að aðalfundurinn óskaði þess að byggingin „gengi sem best og hraðast“. Þessi ályktun mun komin til af því að vinstrigrænir segjast vera femínískur flokkur og hann telur því mikilvægt að þeir sem vilja útbreiða islam á Íslandi fái til þess viðunandi aðstöðu.
Ungir vinstrigrænir samþykktu einnig ályktun þar sem þeir fögnuðu baráttu Jóns Gnarr Kristinssonar borgarstjóra fyrir mannréttindum, „og þá sérstaklega tjáningarfrelsis í Rússlandi“ en einnig hefði hann „stutt mannréttindabaráttu samkynhneigðra bæði hér og í Færeyjum með ráði og dáð.“
Hinar tvær ályktanir fundarins voru auðvitað einnig brýnar. Í annarri var farið fram á stóraukna „aðkomu ríkis og sveitarfélaga að leigumarkaði“, enda skiljanlegt að þeir sem vilja að borgararnir verði upp á hið opinbera komnir á sem flestum sviðum, eigi einnig heima í leiguíbúð í eigu hins opinbera. Í hinni var svo krafist róttækra grundvallarbreytinga á „almenningssamgöngukerfi borgarinnar“, enda vitaskuld eðlilegt að hið opinbera komi mönnum milli staða.