Vefþjóðviljinn 267. tbl. 16. árg.
Á mánudaginn var kynntu kanadíski hagfræðingurinn Michael Walker, stofnandi Fraser stofnunarinnar í Kanada, og Gísli Hauksson framkvæmdastjóri nýjasta mat Fraser stofnunarinnar stöðu efnahagslegs frelsis á Íslandi.
Tilefni fundarins var útgáfa samanburðarskýrslu um efnahagslegt frelsi þjóða, hinnar svonefndu Frelsisvísitölu, sem Fraser stofnunin lætur reikna út ár hvert sem mælikvarða á efnahagslegt frelsi í heiminum.
Sem von er í gjaldeyrishöftum og dólgaskattheimtu norrænu velferðarstjórnarinnar hefur efnahagslegt frelsi á Íslandi minnkað undanfarin ár. Morgunblaðið sagði svo frá fundinum:
Walker segir að á síðustu 10 árum hafi staða Íslands í sjálfu sér ekki breyst mjög mikið. Aftur á móti hafi önnur ríki bætt sig töluvert og skilið Ísland eftir neðar. Meðal annars hafi Ísland verið á lista yfir 10 efstu löndin fimm sinnum frá 2001 til 2006, en síðan þá lækkað nokkuð hratt. Hann segir að þar skipti mestu máli efnahagshrunið og þær leiðir sem valið hafi verið að fara í kjölfarið. Tiltekur hann einnig þá mismunun sem verði til þegar ákveðnir vöruflokkar eða atvinnuvegir fái mismunandi skattlagningu og að „sigurvegarinn“ sé þannig valinn gegnum skattlagningu frekar en vilja kaupenda.
Umfang og skuldasöfnun ríkisins er að mati hans einnig orsök fyrir slakara gengi Íslands á síðustu árum í vísitölunni, auk þess sem peningastefna Seðlabankans hafi ekki gengið upp og að skattkerfið hér sé enn of flókið og skattar og tollar of háir. Walker tók dæmi af öðrum smáríkjum þar sem peningastefnan hefði verið skilvirkari og taldi ekki að krónan væri orsakavaldur að efnahagshruninu hérlendis. Ítrekaði hann margsinnis að peningastjórn hérlendis væri ábótavant og að verðbólgan hefði gegnum tíðina verið of mikil og sýndi fram á efnahagslega óstjórn.
Það er óhætt að taka undir það með Walker að það er hluti af forsjárhyggju og efnahagslegri miðstýringu þegar fólki og atvinnugreinum er mismunað og stýrt með skattkerfinu. En sumir frjálshyggjumenn eru þó þeirrar skoðunar að það sé skárra að sumar atvinnugreinar búi við lægri skatta eða undanþágur en að allir séu settir undir sömu háu skattana.
Mælingar af þessu tagi eru því auðvitað engin nákvæmnisvísindi, ýmsir þættir þeirra eru huglægir þótt Walker segi að það breyti niðurstöðunni ekki þótt þeir þættir sem augljóslega eru huglægir séu teknir til hliðar.
Það er til að mynda mikill munur á svonefndum heimilisiðnaði milli landa og álfa en alls óvíst hversu vel gengur að meta hann til landsframleiðslu sem er aftur á móti grunnstærð þegar menn reyna að finna fylgni milli efnahagslegs frelsis og hagsældar.
En Fraser Insitute telur einmitt og rökstyður að finna megi fylgni milli þessara þátta.
En velsældin sem frelsið færir mönnum er auðvitað bara bónusvinningur. Stóri vinningurinn er frelsið sjálft.