Þriðjudagur 4. september 2012

Vefþjóðviljinn 248. tbl. 16. árg.

Eins og Grímsstaðaauglýsingin í síðustu viku bar með sér er enn verið að vandræðast með Huang Nubo. Sveitarstjórnir hafa boðist til að leppa kaup Nubos á Grímsstöðum og láta það heita að hann leigi landið til 40 ára. Togast er á um málið í ríkisstjórn, þar sem helstu ráðherrar Samfylkingarinnar, þau Jóhanna, Steingrímur, Katrínarnar og Össur standa saman að vanda. 

Nýjasta uppátæki ríkisstjórnarinnar er að skipa starfshóp ráðherra og ráðuneyta um málið. Steingrímur J. Sigfússon nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra útskýrði verkefni hópsins á dögunum:

Er þetta það sem sagt er eingöngu áform um uppbyggingu í ferðaþjónustu. Eða er þetta tengt einhverju öðru og meira. Við skulum bara fá það hreint. Sem og fara vandlega yfir það hér hjá okkur sjálfum. Hvernig líst okkur á þetta og hvað viljum við.

Fá þetta á hreint. Er þetta ekki aðeins of mikil staðalímynd af Kínverjanum að halda að hann geti svarað hvað hann ætli sér að gera á Grímsstöðum fram eftir öldinni? Það á sjálfsagt ýmislegt eftir að ganga á næstu 10, 20 eða 30 árin sem breytir forsendum manna, jafnvel þótt þeir komi frá Kína.