Mánudagur 3. september 2012

Vefþjóðviljinn 247. tbl. 16. árg.

Gísli J. Ástþórsson með pípu á ritstjórnarfundi á Morgunblaðinu. Önnur á myndinni eru Ingvi Hrafn Jónsson, Björn Jóhannsson, Jóhanna Kristjónsdóttir, Árni Johnsen, Þorbjörn Guðmundsson og Styrmir Gunnarsson. Myndina tók Ólafur K. Magnússon.
Gísli J. Ástþórsson með pípu á ritstjórnarfundi á Morgunblaðinu. Önnur á myndinni eru Ingvi Hrafn Jónsson, Björn Jóhannsson, Jóhanna Kristjónsdóttir, Árni Johnsen, Þorbjörn Guðmundsson og Styrmir Gunnarsson. Myndina tók Ólafur K. Magnússon.

Tilveran væri daufari og leiðinlegri ef engar væru listirnar til að skemmta fólki og hrífa. Góðir listamenn geta verið miklir velgjörðamenn samborgaranna á sinn hátt. Einn af þeim skemmtilegu á síðustu öld var Gísli J. Ástþórsson, teiknari og rithöfundur. Hann leit þó alltaf á sig sem blaðamann en ekki listamann, eins og hann rakti í viðtali sem Jakob F. Ásgeirsson tók við hann í Morgunblaðinu árið 1982.

Frá því ég byrjaði á Mogganum 1945 hef ég kallað mig blaðamann. Þar að auki hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé ekki beinlínis skylda þjóðarinnar að framfleyta þessum mönnum sem langar til að fremja list. Það kemur engum við þó einhverjir fæðist skrýtnir og beri þessa löngun í brjósti sér að skrifa bækur eða mála myndir. Ég vorkenni þeim ekkert. Sumir af þessum guttum krefjast forréttinda við að skrifa bækur, mála mynd eða blása í flautu. Þeir eru reiðubúnir að fremja hina miklu list bara ef þjóðfélagið sér fyrir þeim. Og það er hlálegt að þeir sem eru háværastir í þessari kröfugerð um ríkisframfærslu listamanna, þeir eru um leið háværastir í baráttu gegn forréttindum almennt. Ég gleðst ef einhver maður á Íslandi getur haft framfæri sitt af listsköpun – í landi tvö hundruð og þrjátíu þúsund sálna. En það er fráleitt að hver einasti sem fær þá flugu í höfuðið að gerast listamaður geti sent ríkinu reikning og þurfi síðan ekki að hafa áhyggjur af því meir hvernig hann fái saltið í grautinn. Hér á landi eru kannski sjötíu til áttatíu manns sem telja sig sjálfborna til að njóta framfærslu ríkisins meðan þeir skapa listaverk. Og ef við berum okkur saman við Bandaríkin þá myndi það þýða áttatíu þúsund sálir! Okkur þætti það nú æði skoplegt ef við fréttum það væru áttatíu þúsund manns á listamannalaunum í Bandaríkjunum.

Þrjátíu ár eru liðin frá því þetta viðtal var tekið. Nú eru auðvitað mun fleiri en áttatíu manns á listamannalaunum hjá skattgreiðendum, enda hefur grimm nýfrjálshyggja vaðið uppi síðustu áratugi eins og menn vita sem hafa hlustað á Spegilinn. Hann kemur einmitt á eftir Víðsjá og þar er nú oft fjallað um menninguna – eða Menninguna sem einnig bar á góma í hinu þrjátíu ára gamla samtali þeirra Gísla og Jakobs.

Já, menning með stórum staf. Ég var nýverið að lesa í blaði þar sem sagði að það væri að gera Mitterand-mennina brjálaða af áhyggjum að almenningur er orðinn svo hundleiður á menningunni í sjónvarpinu franska. Og mér skildist á greininni að það mætti fara að búast við kröfugöngum af þessu tilefni. Mitterand-mennirnir hafa nefnilega ákveðið að fólk skuli fá að sjá menningu í sjónvarpi. Gáfaðir menn byltast hver um annan þveran á skjánum og flytja menninguna inná hvert heimili þar sem fólk á að sitja með tunguna lafandi út úr sér af hrifningu. En það bera gerist ekki. Fólk slekkur á tækjunum í dauðans ofboði þegar þessir voðalegu menn birtast. En það er ekki þar með sagt að fólk sé menningarsnautt þó það kæri sig ekki um að láta mata sig á menningu með stórum staf. Ég hafði svolítið gaman af þessu með Frakkann því ég hata skipulagða menningu. Menningu – sem alls konar menningarvitar þykjast geta flokkað og skilgreint úti í bæ. Niðursoðna menningu!

Gísli J. Ástþórsson hafði þægilegan og tilgerðarlausan ritstíl. Sem dæmi um hann mætti taka litla bók sem Almenna bókafélagið gaf út eftir hann árið 1958 og nefnist Hlýjar hjartarætur. Þar segir á einum stað, að „hræðilegasta augnablikið í lífi ungs manns, sem er að halda út í heim í fyrsta skipti, rennur upp þegar venslafólkið mætir með Sesselju frænku í broddi fylkingar og byrjar að leggja honum lífsreglurnar. Þetta heitir að miðla æskumanninum (eða yngismeynni) af visku sinni og lífsreynslu og búa hann undir það, að margt sé ólíkt með París og Grindavík; þó að hitt sé sanni nær, að tilgangurinn sé fremur að breiða út hreysti- og kvennafarssögur af sjálfum sér undir því yfirskini að þær séu sagðar öðrum til varnaðar.“ 

Og þegar Gísli hélt ungur út í heim skorti ekki ráðleggingarnar.

Þegar þar kvisaðist út í fjölskyldunni, að ég væri að fara til langdvalar með framandi þjóðum, þá voru þeir ósparir á heilræðin, frændur mínir.

Einn hafði orðið fyrir því óláni að týna veski sínu og vegabréfi í erlendri hafnarborg. Síðan trúði hann því, að allir útlendingar væru vasaþjófar, og kvenfólkið þó skæðast. Það var nú ráð hans, að ég nældi fyrir buxnavasa mína, að minnstakosti fyrir þá, sem hefði verðmæti að geyma; og ef ég yrði var við grunsamlegt þukl um persónu mína, þá átti ég að vinda mér við og segja hranalega: „What the hell!“

Annar ráðlagði mér að eiga alltaf peninga, hvað sem á dyndi, og best væri og tryggast að eiga þá á bók. Þetta heilræði hefur aldrei liðið mér úr minni, svo einstakt sem það er. En ekki þorði ég að spyrja hvernig maður færi að því að eiga alltaf peninga, hvað sem á dyndi, og hefði slík vitneskja þó oft komið sér vel.

„Náinn fjölskylduvinur“ – en svo nefnast þeir menn, sem þykjast hafa öðlast rétt til að sletta sér fram í einkamál óskyldra – réð mér frá því að reyna að lifa á eintómum ávöxtum í útlandinu. Hann hafði tilhneigingu til þess að hverfa til baka til náttúrunnar og gekk eins langt í þeim efnum og hann þorði mannorðs síns vegna: hrámetisát, möllersæfingar, sóldýrkun, ísköld steypiböð og þar fram eftir götunum.

Hann hafði á sokkabandsárum sínum ferðast til Frakklands í leit að menningarstraumum, sest að í þorpi einu suður við Miðjarðarhaf og tekið sér fyrir hendur að lifa á appelsínum, banönum og vínberjum og öðru ekki. Eftir svosem viku fékk hann ofsahita með óráði. Þeir innfæddu reyndu að lækna hann með því að gefa honum appelsínuvökva, bananastöppu og þurrkuð vínber. Hann var nær dauða en lífi þegar hann komst til Parísar, þar sem læknarnir björguðu lífi hans með því að punda í hann gúllasi í hálfan mánuð. 

Frændi minn, sem ég kann ekki við að nafngreina, ráðlagði mér að lifa eins og kóngur. Ég á mynd af honum í konsúlsfrakka með harðan hatt, montprik, vindil og hjartaknúsarayfirskegg. Myndin er bráðum fjörutíu ára. Hann er eins og enskur lord – svinggæi, módel 1920.

„Þeir taka ekki mark á neinum helvítis labbakútum þarna vestra“, sagði hann; „það eru millarnir sem gilda.“ … Það vildi svo til, að um það bil mánuði seinna rættist draumur frænda míns og ég stóð andspænis ósviknum bandarískum milljónara. Ég hafði verið beðinn fyrir bréf til hans frá landa hans í Reykjavík. Hann bjó með konu sinni og dóttur í íbúð í Waldorf Astoria í New York, sem er eitt íburðarmesta hótel borgarinnar og svo rándýrt, að einungis olíukóngar, uppgjafaforsetar og Íslendingar á vegum ríkisstjórnarinnar hafa efni á að búa í fínustu herbergjunum. 

Hann ávarpaði mig hátt og snjallt, bauð mér til stofu, þrýsti viskíglasi í höndina á mér, spurði hvað væri títt frá Íslandi, þati í símann og byrjaði að þjarka um fimmtíu þúsund dollara. Á meðan kom konan hans inn í stofuna í gráum rauðakrossbúningi, hellti meira viskí í glasið mitt, spurði hátt og snjallt hvað væri að frétta frá Íslandi og svaraði spurningunni sjálf með því að segja mér, að hún hefði verið að enda við að bjarga á fimmta hundrað mannslífa niður við höfn. Hér þarf ég að skjóta því inn í, að þetta var á þriðja ári heimsstyrjaldarinnar, og í Bandaríkjunum var það mikið sport, að framáfrúr létu sauma á sig tvö hundruð dollara rauðakrossbúning og færu niður að bryggju að gefa sjómönnum kleinuhringi og kakó þegar þeir komu af hafinu.

Á meðan kona milljónarans lét dæluna ganga, kom dóttir hennar inn í stofuna, þreif viskíflösku, flýtti sér að hella í glasið mitt, spurði hvað væri nýjast frá Íslandi og tilkynnti hátt og snjallt, að hún væri að fara í bíó. Á þessu stigi málsins hefði frændi minn eflaust brýnt raustina, krotað dularfullar sex stafa tölur í minnisbókina sína og spurt milljónarann í trúnaði, hvar hann gæti fengið keypta tuttugu togara við sæmilegu verði. En ég sagðist vera að flýta mér og kvaddi.