Vefþjóðviljinn 219. tbl. 16. árg.
Bandaríski rithöfundurinn Gore Vidal lést á dögunum og hefur verið minnst víða um heim. Hann gat verið orðheppinn. Þegar hann var spurður hverju það hefði breytt um gang heimsmálanna ef það hefði verði Krústjof en ekki Kennedy sem var myrtur árið 1963, kvaðst hann geta fullyrt að Aristóteles Onassis hefði ekki gifst ekkju Krústjofs.
Vinstrimenn, ekki síst evrópskir, hafa löngum verið hrifnir af Vidal enda talaði hann oft illa um þá bandarísku stjórnmálamenn sem evrópskir vinstrimenn hata heitast. Að Vidal látnum hafa þeir vitnað í ýmis orð hans, af mikilli virðingu. Meðal þeirra er sú hugleiðing hans að bandarískur stjórnmálamaður sem geti safnað sér gríðarlegum kosningasjóði til að verða forseti, muni aldrei verða forseti hins venjulega manns, heldur fyrst og fremst stóru hagsmunahópanna, svo sem bankanna, olíuiðnaðarins, geimferðaiðnaðarins og svo framvegis.
Bandaríkin eru sem heil heimsálfa. Þrjúhundruð milljónir manna dreifðar yfir gríðarstórt landflæmi. Það liggur í augum uppi að það er ekki fyrir hvern sem er að kynna sig og sín stefnumál svo dugi til að verða með lýðræðislegum hætti kjörinn til æðstu valda í slíku landi. Sá sem getur safnað digrum kosningasjóði hefur meiri tækifæri en sá sem getur það ekki. En engu að síður er það þó svo, að lokavaldið er í höndum kjósenda sjálfra. Ef mönnum yrði bannað að safna fé og kynna sig, þá hentaði það auðvitað fyrst og fremst tveimur hópum. Þeim sem fyrir eru á valdastólum, því þeir eru þekktir. Og svo þeim sem landsþekktir eru af einhverju öðru. Aðrir yrðu útilokaðir.
Það merkilega er hins vegar, að þeir spekingar sem eru á þeirri skoðun, að kjörnir valdamenn hljóti alltaf að draga taum voldugu hagsmunahópanna á kostnað venjulegs fólks, þeir berjast sjaldan fyrir einu raunhæfu lausninni á því ástandi.
Hver er hún? Hún er sú að minnka völd og áhrif þessara stjórnmálamanna. Minnka heimildir þeirra til þess að ráðskast með líf hins almenna manns. Því meira sem hinn almenni maður ræður um líf sitt, og því minna sem kjörnir fulltrúar – að ekki sé minnst á ókjörna embættismenn – hafa um líf hans að segja, því minna máli skiptir hverjir hinir kjörnu fulltrúar eru.
Evrópskir vinstrimenn vitnuðu óspart í orð Vidals um bandarísku forsetana með kosningasjóðina sína, sem hugsa bara um stórfyrirtækin en ekki hinn almenna mann. Evrópsku vinstrimennirnir hafa hins vegar engar áhyggjur af valdamönnunum í Evrópu. Herman van Rompuy, José Manuel Barroso og félagar þeirra í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins safna reyndar ekki í kosningasjóði. En það er vegna þess að þeir þurfa þess ekki. Evrópskur almenningur fær aldrei að kjósa um þá. Hann fær bara tilskipanirnar.
En af því hafa evrópskir vinstrimenn engar áhyggjur.