Vefþjóðviljinn 218. tbl. 16. árg.
Í liðinni viku bættist Stefán Ólafsson prófessor í hóp þeirra sem telja að svonefnd tekjublöð gefi villandi mynd af tekjum manna. Vefþjóðviljinn fagnaði þeirri liðveislu. Tekjublöðin eru ógeðfellt fyrirbæri. Mörg dæmi hafa verið nefnd um hve villandi upplýsingar þau veita um tekjur manna. Hér er eitt til: Margir hafa tekið út milljónir af séreignasparnaði sínum undanfarin ár. Engin leið er fyrir „tekjublöðin“ svonefndu að greina á milli þessara útgreiðslna og venjulegra launatekna og engin leið fyrir þau að vita hverjir það voru sem nýttu sér þennan kost á útgreiðslu úr séreignasparnaði. Þannig geta jafnvel „tekjur“ þær sem slúðurblöðin klína á venjulega opinbera starfsmenn verið víðs fjarri öllum sanni.
En þegar Vefþjóðviljinn fagnaði þessari fremur óvæntri liðveislu Stefáns Ólafssonar bar svo við að Benedikt Jóhannesson útgefandi tekjublaðs Frjálsrar verslunar skrifaði grein þar sem hann andmælti Vefþjóðviljanum með þeim gríðarlega þungu rökum að Vefþjóðviljinn og Stefán Ólafsson væru nú sammála, hahaha. Átti Vefþjóðviljinn skiljanlega engin svör við rökfimi útgefandans.
Benedikt taldi einnig að Stefán hefði hliðrað tölum hagstofunnar um tekjujöfnuð á Íslandi, sem átti væntanlega að sanna hið óskylda að hollt og gott væri að gefa út „tekjublöð“ þótt upplýsingar væru ýmist rangar eða villandi.
Aðrir komu glaðbeittir í kjölfarið og sögðu að þarna hefði Benedikt stærðfræðingur tekið prófessorinn í kennslustund. Villa prófessorsins væri „sláandi og alvarleg“ og málið allt til marks um að Stefán falsaði gögn til hagsbóta fyrir Samfylkinguna. Var mikið lagt upp úr því að Benedikt væri stærðfræðingur og hlyti þar af leiðandi að hafa rétt fyrir sér um meðhöndlun talna frá hagstofunni, en Stefán ekki. Birtu lærisveinar stærðfræðingsins jafnvel graf máli sínu til stuðnings sem sýna átti hvernig Stefán hliðraði þróun mála Samfylkingunni í hag.
Nú er þó komið á daginn að Stefán Ólafsson hafði rétt fyrir sér en Benedikt og þeir sem átu upp eftir honum á AMX misskildu gögn hagstofunnar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem nokkrir hægrimenn tapa áttum þegar Stefán Ólafsson tjáir sig um skatta og tekjur.
Árið 2006 benti Stefán á að skattbyrði hefði þyngst árin þar á undan. Það var alveg rétt hjá honum þótt það væri jafn rangt að skattar hefðu beinlínis verið hækkaðir eins og stundum var nefnt í áróðursstríðinu. Þótt ýmis skatthlutföll hefðu verið lækkuð dugði það ekki til að draga úr skattbyrðinni á meðan tekjur manna voru að aukast. Vegna skattleysismarka greiða menn stighækkandi skatt af tekjum. Þar við bættist að sveitarfélög hækkuðu sífellt sinn hluta tekjuskattsins, útsvarið, og því skilaði lækkun ríkisins sér aðeins að hluta.
Eftir að Stefán upplýsti um þessar augljósu staðreyndir hafði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor forgöngu um mikinn áróður gegn Stefáni og reyndi að vefengja þessar ábendingar hans. Þetta var alveg undarlegt því það ætti að vera vatn á myllu hægrimanna að skattbyrði hafi þyngst og þörf sé frekari lækkunar skatta. Ekki kjósa menn Samfylkinguna eða VG í von um að skattar lækki. Auðvitað átti að nýta þessa ábendingu til að krefjast frekari lækkunar skatthlutfalla í stað þess að leggjast í afneitun.
Það er því óskiljanlegt að þegar Stefán Ólafsson veitir frjálshyggjumönnum óvænt – og jafnvel óvart – liðveislu í baráttunni fyrir friðhelgi einkalífs og lækkun á sköttum skuli menn láta persónulega óvild spilla því.
Og auðvitað er öllum ljóst að Stefán Ólafsson prófessor er vinstrisinnaður. En hann setur oft fram áhugaverðar upplýsingar um þjóðfélagið. Stundum má alveg gagnrýna hann fyrir túlkun á þeim, eins og Vefþjóðviljinn hefur tíðum gert, en oftast má líka draga af þeim nokkurn lærdóm.