Vefþjóðviljinn 217. tbl. 16. árg.
Þótt ráðherrar láti eins og allt sé gert til að spara í rekstri ríkisins eiga ákveðnir hópar áfram greiða leið að sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Dæmin um þetta eru ef til vill ekki öll mjög stór en áhugaverð engu að síður.
Reykjavíkurakademían er félag um vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn. Félagið hefur frá stofnun árið 1997 notið árlegs milljónastuðnings Reykjavíkurborgar þótt engin sérstök rök séu fyrir því að borgin útvegi þessum hópi manna vinnuaðstöðu fremur en öðrum. Hvað með rafvirkja eða bifreiðastjóra sem reyna fyrir sér í sjálfstæðum rekstri? Hvað með fræðimenn sem geta ekki nýtt sér þessa aðstöðu af ýmsum ástæðum?
Á síðasta ári gerði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra svo „styrktarsamning“ við Reykjavíkurakademíuna fyrir hönd skattgreiðenda á landsvísu. Hann felur í sér 16 milljóna króna stuðning á ári fram yfir kosningar á næsta ári.
Hér er um að ræða ný útgjöld sem vart verður séð að varði líf eða heilsu landsmanna eða geti á nokkurn hátt talist grunnþjónusta. Og þessar 16 milljónir eru ekki til í ríkissjóði sem rekinn er með 89 þúsund milljóna króna halla.
En auðvitað mætti sjálfsagt réttlæta þessi nýju útgjöld með því að „hér varð auðvitað hrun.“