Föstudagur 3. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 216. tbl. 16. árg.

Ólafur Ragnar Grímsson var settur í forsetaembætti enn einu sinni um mánaðamótin og hélt við það tilefni ræðu yfir glaðbeittri Jóhönnu Sigurðardóttur og félögum hennar. Sumt sem hann sagði var tómt rugl eins og allar vonir stóðu auðvitað til, en annað var ekki alveg galið.

Það er til dæmis rétt hjá Ólafi Ragnari að vara við þeirri fráleitu atlögu sem nú er gerð að stjórnarskrá landsins, undirstöðu stjórnskipunarinnar. Sérstaklega má taka undir orð hans þegar hann varar við því að henni verði breytt í miklum ágreiningi.
Stjórnarskrá er grundvallarskjal og á henni á stjórnskipun að byggjast til langs tíma. Það liggur í eðli stjórnarskrár að hún geymir reglur sem tímabundinn meirihluti á Alþingi á ekki að geta breytt. Þetta er grundvallaratriði sem núverandi stjórnarliðar gera nákvæmlega ekkert með en fjölmiðlamenn og álitsgjafar skilja ekki.
Sumir segja ekkert að því að breyta stjórnarskrá í miklum ágreiningi á þingi og með tæpum meirihluta. Spyrja hvort ekki sé lýðræðislegt að meirihluti á hverri stund ráði. Sú spurning er auðvitað oft skiljanleg við afgreiðslu mála á þingi, en á síst við þegar reynt er að breyta stjórnarskránni.

Ef það væri svo, að skammtímameirihluti á þingi ætti að breyta reglum stjórnarskrárinnar eftir því sem honum sýndist hverju sinni, þá væru reglur hennar alls ekki í stjórnarskrá. Þá  væru þær í almennum lögum. Skýringin á því að tilteknar reglur eru settar í stjórnarskrá er sú, að það er verið að verja þær fyrir skyndibreytingum sem byggðar eru á því hvernig vindar blása á einu kjörtímabili.

Undanfarin ár hefur æsingastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur staðið fyrir einstakri atlögu að stjórnskipaninni. Flest ef ekki öll skref í þágu þeirrar baráttu hafa verið illa stigin. Það er rík ástæða fyrir alla þá sem er annt um vitræna stjórnarskrá á Íslandi og alla þá sem annt er um að einhverjar grundvallarreglur verði hafðar heiðri, að standa þétt saman til varnar stjórnarskránni.
 
En úr því minnst er á stjórnarskrána og forsetaembættið þá má til gamans spyrja að því hvers vegna Ólafur Ragnar Grímsson hafi komið í bifreið forsetaembættisins til innsetningarathafnarinnar. Kjörtímabili hans lauk á miðnætti og hann tók ekki við embættinu aftur fyrr en við athöfnina. Hann kom sem óbreyttur borgari til hennar.
Hann hefur eflaust fengið bílinn lánaðan hjá handhöfum forsetavalds.