Vefþjóðviljinn 212. tbl. 16. árg.
Ætli kosið verði til alþingis á næsta ári?
Stjórnarliðar hafa skyndilega komist að því að það verði „hugsanlegt svigrúm í ríkisfjármálum á næsta fjárlagaári“, eins og það er orðað í Fréttablaðinu í morgun. Jóhanna Sigurðardóttir segist ætla að nýta það nýfundna svigrúm og hafa þrennt í huga: Barnabætur, fæðingarorlof og vaxtabætur.
Auðvitað er ekkert „svigrúm“ hjá ríkissjóði. Vinstristjórnin rekur ríkissjóð með tugmilljarða halla umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum hennar sjálfrar. Það gat verður auðvitað að brúa hið allra fyrsta, og með niðurskurði útgjalda en ekki frekari skattheimtu.
En ef menn horfa fram hjá þessu og gleyma sér þess í stað í hugarheimi stjórnarherranna þá blasir við að þar er stefnan einföld. Meira vasapeningaþjóðfélag.
Nýir skattar og hækkun þeirra sem fyrir voru. Stærri og stærri hluti þess sem fólk þó vinnur sér inn, skal tekinn í ríkissjóð. Svo fá jóhönnurnar þar að útdeila.
Hærri skattar. Meiri bætur. Stjórnarflokkarnir sjá ekkert athugavert við þá þróun. Vasapeningaþjóðfélag ósjálfstæðs fólks sem þarf að treysta á bætur og styrki, er þeirra draumsýn. Sennilega sæju ráðamenn ekkert að því að landsmönnum yrði skipt í tvo hópa, ölmusumenn og starfsmenn félagsþjónustu. Hugsanlega mætti bæta við nokkrum ráðherrum ofan á og einum félagsfræðiprófessor með þeim, til að útskýra í Speglinum að þetta sé allt á réttri leið.