Vefþjóðviljinn 211. tbl. 16. árg.
Á fjölsóttum fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands á föstudaginn veik breski líffræðingurinn og rithöfundurinn Matt Ridley að hlýnun andrúmsloftsins, sem hann telur staðreynd. Hann telur einnig líklegt að athafnir mannsins eigi þar einhvern hlut að máli þótt spár loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna um hækkun hafi ekki gengið eftir. Og hann telur jafnframt að maðurinn muni laga sig að þeim breyttu aðstæðum sem hlýnun gæti haft í för með sér.
Eins og menn þekkja er bruni á jarðefnaeldsneyti, olíu, kolum og gasi, talinn stærsta framlag mannsins til aukningar á styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu. Jarðefnaeldsneyti fullnægir nú um 85% af orkunotkun mannkyns. Aðrir orkugjafar hafa átt á brattann að sækja því þrátt fyrir allt hefur olían að jafnaði verið ódýrari en aðrir kostir. Auk þess sem olíuna má flytja og geyma að vild og nota þegar þörf krefur, sem er umtalsvert forskot á til að mynda vindorku sem þarf að nýta þá og þegar vindar blása.
Ridley nefndi að með því að hefja notkun jarðefnaeldsneytis hefðu menn fært sig úr notkun endurnýjanlegra orkugjafa eins og timburs. Þetta hefði hlíft skógum við eyðingu enda hefðu skógar almennt stækkað hratt á Vesturlöndum undanfarna öld. Þessu til frekari stuðnings sýndi Ridley loftmynd af landamærum Haítí og Dóminíkanska lýðveldisins. Í Haítí búið að brenna skógana í ofnum og eldstæðum landsmanna en handan landamæranna er blómlegur skógur en þar nota menn olíu sem orkugjafa.
Notkun jarðefnaeldsneytis hefur einnig hlíft ýmsum fallegum stöðum við vindmyllum, stíflugörðum og háspennulínum.
Við þessa upptalningu má ef til vill bæta að með tilkomu steinolíu fækkaði ástæðunum til að veiða hvali því allir vildu skipta á illa þefjandi lýsinu og nýja ljósmetinu í lömpum sínum.
Í bók sinni The Rational Optimist nefnir Ridley einnig að hin nýja orka úr jarðefnaeldsneyti hafi lagt sitt af mörkum til að leysa menn úr þrældómi vítt og breitt um heiminn, ekki vegna þess að menn hafi skyndilega fengið slæma samvisku vegna þrælahaldsins heldur hafi aðrir aðferðir við erfiðisvinnu gert það óhagkvæmt.
Auðvitað óska þess allir að önnur jafn ódýr og þægileg orka og olían veiti henni keppni og auðveldi mannkyni lífið. Þangað til verða menn þó að sætta sig við þetta margfordæmda fyrirbæri sem létt hefur mönnum lífið með yl og birtu, bjargað skógunum og hvölunum, leyst fólk úr ánauð og komið í veg fyrir að „óspillt víðerni“ hverfi undir lón, vindmyllur og háspennulínur.