Vefþjóðviljinn 210. tbl. 16. árg.
Einhvers staðar í öllum niðurskurðinum hjá hinu opinbera fannst þó fjárveiting til að veita landsmönnum leiðsögn um „grænt kynlíf.“ Umhverfisstofnun hefur það krefjandi verkefni á sinni könnu. Á vef stofnunarinnar segir að umhverfisfræðunum sé „ekkert óviðkomandi“ og því sé að ýmsu að huga í svefnherberginu. Um kynlíf almennt segir stofnunin
Grænn og heilsusamlegur lífsstíll hjálpar til við að viðhalda lönguninni í amstri nútímans. Athöfnin sjálf er líka góð líkamsrækt! Auk þess hafa rannsóknir sýnt að kynlíf sé samofið vellíðan og hamingjuríku lífi.
Þarna er vikið að mikilvægu efni. Kynlíf er samofið vellíðan og hamingjuríku lífi. En nú er það víst svo að þessum mikilvægu gæðum er misskipt. Sumir fá mikið og aðrir sjaldan og lítið. Og sumir ekki neitt.
Vafalaust gætu prófessor Stefán Ólafsson og norræna velferðarstjórnin fengið Indriða til að útfæra sérstakt gistináttagjald á graðasta liðið og dregið þar með úr þessum ójöfnuði. En eins og Vefþjóðviljinn hefur stundum reynt að benda á þá er vandséð að það auki lífsgæði þeirra sem minnst hafa þótt kroppað sé af þeim sem mest hafa.
Vefþjóðviljinn skilur ekki heldur hvernig það má vera að ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og velferð skuli banna vændi þegar það er vissulega eini möguleiki margra til að njóta þess hamingjuríka lífs sem sjálf umhverfisstofnun ríkisins segir samofið kynlífi.