Vefþjóðviljinn 202. tbl. 16. árg.
Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær er rætt við Kára Björnsson, ungan mann sem rekur fyrirtækið Extreme Iceland sem selur ferðamönnum alls kyns þjónustu og ferðir um landið. Hann segist hafa rekist á ýmsar hindranir í rekstrinum sem rekja megi til hins opinbera. Kári segir
Þær reglur eru líka í gildi að til að mega ferja ferðalanga þarf hópferðaleyfi á bílinn, en þá þarf ökutækið annaðhvort að rúma 9 farþega hið minnsta eða vera að lágmarki 10% breytt. Þessar reglur skilst mér að hafi verið settar til að vernda hagsmuni leigubílstjóra en um leið er verið að eyðileggja möguleikann á að fullnægja ákveðinni þörf fyrir lúxusleiðsöguferðir fyrir einstaklinga, pör og litla hópa. Í stað þess að geta til dæmis skotist austur að Jökulsárlóni í þægilegum og rúmgóðum fjögurra sæta Benz þarf annað hvort að fara á risavöxnum og eyðslufrekum jeppa eða þá að nota smárútu þar sem þægindin og íburðurinn eru af skornum skammti.
Það vantar ekki að úti um allt eru fyrir mönnum reglur sem hamla þeim í starfsemi sinni, en er ætlað að gæta hagsmuna einhverra annarra. Og þessir aðrir eru ekki endilega viðskiptavinirnir. Gjarnan eru það keppinautar í öðrum rekstri sem hafa náð að knýja það fram, að rekstur annarra verði gerður óhagkvæmari.
Auðvitað eru reglurnar iðulega réttlættar með einhverju fallegu. Til dæmis aðstöðu starfsfólks. Ófá fyrirtæki í veitingaþjónustu hafa til dæmis lagt út í mikinn kostnað við að setja upp sturtu fyrir starfsfólkið, til að friða eftirlitsmenn hins opinbera, en þar hefur svo aldrei nokkur maður farið í sturtu.
Og iðulega er reynt að auka slíkar reglur. Á dögunum var til dæmis kvartað yfir því að sprottið hafa upp bílaleigur sem bjóða upp á gamla bíla til leigu. Þetta þótti kalla á aukið opinbert eftirlit. En hverjir voru það sem töldu það? Voru það óánægðir viðskiptavinir eða kannski einhverjir sem höfðu orðið fyrir barðinu á gömlum bílaleigubíl í umferðinni? Nei það voru aðrar bílaleigur. Sem bjóða upp á nýrri bíla.