Vefþjóðviljinn 163. tbl. 16. árg.
Það er leiðinlegt að George Orwell hafi misst af blaðamannafundi forsætisráðherra Spánar á sunnudaginn. Hann hefði orðið hrifinn.
Á laugardaginn bað Spánn um neyðarlán frá öðrum evrulöndum, að jafnvirði eitt hundrað milljarða evra. Fjórða stærsta hagkerfi evrusvæðisins er því komið að fótum fram. Nú snýst málið ekki um neitt Grikkland.
Misserum saman hafa menn talað um að það yrði stóráfall fyrir evrusvæðið, og sýndi að vandamálin væru orðin nær óyfirstíganleg, ef eitthvert af stærri hagkerfunum, svo sem Spánn eða Ítalía, yrði að leita neyðarláns. Spönsk yfirvöld hafa jafnan talað digurbarkalega um að svo muni ekki fara. Spánn muni standa evruófarirnar af sér.
En nú getur Spánn það ekki heldur. Fjórða stærsta hagkerfi evrusvæðisins er komið að niðurlotum. Við það bætist óskaplegt atvinnuleysi. Hjá ungu fólki er annar hver Spánverji atvinnulaus.
Og hvernig ætli forsætisráðherrann hafi talað á blaðamannafundinum?
Hann hóf mál sitt á því að hann væri kominn til að kynna mikinn sigur: Spánn hefði sótt um neyðarlán. Það sýndi styrk evrusvæðisins og evrunnar að Spánn fengi neyðarlán frá skattgreiðendum hinna landanna, sem þar með þyrftu ekki að láta sér nægja að hafa Grikki á framfæri sínu.
Uppgjöfin, sem menn hafa reynt að forðast misserum saman, varð ekki lengur umflúin. Þá er hún látin heita sigur.
Enginn spyr hvers vegna Evrópusambandið neitaði sér svo lengi um þennan glæsilega sigur. Hvers vegna Spánn vann ekki bara sigurinn strax með því að gefast upp löngu fyrr. Fréttastofa íslenska ríkisútvarpsins sagði frá málinu með orðum Spánverjanna. Þetta sýndi allt styrk evrunnar.
George Orwell hefði orðið hrifinn á blaðamannafundinum. Höfundur vígorðanna „Stríð er friður“ og „Frelsi er ánauð“ hefði verið ánægður með yfirlýsingu Spánverja: „Uppgjöf er sigur“.
En ekki síst hefði hann glaðst yfir því að sjá umfjöllun íslenska ríkisútvarpsins um málið, því þá hefði hann séð þriðja slagorðið sitt, „Fáfræði er máttur“, komið í fulla notkun.