Vefþjóðviljinn 161. tbl. 16. árg.
Lífeyrissjóðurinn Stapi tilkynnti á dögunum að skerða yrði áunnin réttindi um 7,5% til að jafna stöðu eigna og skuldbindinga sjóðsins. Það er auðvitað eðlilegt að greiða ekki út fjármuni sem í raun eru ekki til.
Í tilkynningu sjóðsins segir:
Vegna samspils á milli tekna frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins verður skerðing á tekjum lífeyrisþega mun minni en nemur lækkun á greiðslum frá sjóðnum.
76% sjóðfélaga er að fá undir 100 þúsund í lífeyri frá lífeyrissjóði á mánuði. Stærstur hluti þessa hóps mun fá lækkun á lífeyri frá sjóðnum að fullu eða mestu leyti bætta frá TR. Útreiknuð meðal skerðing á þessum hópi yrði 124 kr. á mánuði. Hærri tekjuhópar skerðast meira, en skerðingin er þó innan við 2% í tekjuhæsta hópnum.
Lífeyrissjóðir virðast geta spilað – eða samspilað eins og stjórn Stapa orðar það – á velferðarkerfið þannig að slök ávöxtun þeirra bitni ekki á sjóðsfélögum. Þetta á sérstaklega við um þá sjóðsfélaga sem minnst réttindi eiga en þeir fá allar skerðingar bættar frá Tryggingastofnun ríkisins.
Það má spyrja hvort lífeyrissjóðir geti til dæmis fært réttindi sjóðsfélaga yfir í séreign hvers og eins og lækkað greiðslur til þeirra sem því næmi. Tryggingastofnun myndi bæta tekjutap sjóðsfélaganna upp en á meðan hlæðist upp séreignasparnaður sem menn gætu leyst út í einu lagi við tækifæri.
Í öllu falli getur það ekki talist heppilegt að í raun sé ríkisábyrgð á lífeyrissjóðunum.