Mánudagur 4. júní 2012

Vefþjóðviljinn 156. tbl. 16. árg.

Í hinum einkennilega umræðuþætti Stöðvar 2 með sumum forsetaefnum í gærkvöldi vildi einn frambjóðandinn gera sem minnst úr vægi Evrópumála í kosningunum. Sagði frambjóðandinn að við núverandi aðstæður væri engin þjóð á leið inn í Evrópusambandið. Evrópumálin væru því ekki mikið atriði nú.

Staðreyndin er hins vegar sú að eitt ríki hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Stjórnvöld þar neita algerlega að skipta þar um skoðun, hægja á ferlinu eða hlusta á nokkur rök í málinu, þrátt fyrir það sem allir aðrir sjá um ástandið í Evrópusambandinu og hrakfarir hins elskaða gjaldmiðils, evrunnar.

Við þær aðstæður er fráleitt að láta eins og enginn sé á leiðinni í Evrópusambandið. Ísland hefur beinlínis sótt um aðild að því. Þingmenn neita alfarið að endurskoða þá ákvörðun.

Það er svo annað mál hvað forsetaembættið getur gert í því máli, ef til kemur. En hvort sem forseti hefur lítið eða mikið til þeirra mála að leggja þá er ekkert við það að athuga að kjósendur vilji vita um hug frambjóðenda til Evrópusambandsins. Með inngöngu í þetta ríkjasamband myndi Ísland afsala sér stórum hluta af fullveldi sínu og lyti stjórn erlendra embættismanna á mörgum sviðum. Gegn þessu telja stuðningsmenn inngöngunnar svo einhver atriði sem þeir telja koma þar á móti. Það er ekkert óeðlilegt við það að bæði stuðningsmenn og andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið vilji vita skoðun forsetaefna á málinu. Þótt forseti Íslands fari ekki með nein völd í málinu þá segir það talsverða sögu um hvern og einn frambjóðanda hvaða afstöðu hann hefur til þess fullveldisafsals sem fælist í inngöngu í Evrópusambandið.