Vefþjóðviljinn 154. tbl. 16. árg.
Það er tímanna tákn að á leiðarasíðu The Wall Street Journal birtist í gær grein undir fyrirsögninni The 5th Avenue to Serfdom eða Fimmta breiðstræti til ánauðar. Þar er vísað til þess að borgarstjórinn í New York borg, sem margir ætla háborg kapítalsimans, ætlar sér að setja íbúum reglur um stærð drykkjaríláta.
Nái tillögur Bloombergs borgarstjóra fram að ganga verður bannað að skenkja sykraða drykki í glös sem eru stærri en tæpur hálfur lítri (16 únsur). Borgarstjórinn segir að grípa verði til þessa ráðs vegna þess að helmingur borgarbúa sé spikfeitur.
Og hvað með það? Má fólk ekki vera í friði með sína fitukeppi?
Nei, stjórnmálamenn eins og Bloomberg hafa nefnilega komið því til leiðar að ríkið greiði lækniskostnað fólks. Nú vilja þeir svo draga úr þessum kostnaði með því að ráðast að ýmsum heilsuspillandi þáttum eins tóbaki, fitu og sykri.
Fyrst eru menn sviptir frelsi til að kaupa heilsutryggingar að eigin vali. Að því búnu er þeim sagt að tryggingarkostnaður ríkisins sé farinn út böndunum og þar með verði að hirða af þeim frelsi til að gera eitt og annað sem talið er eiga sök á þessum kostnaði.
Það er ekki ofmælt að þessi leið, sem fyrr vörðuð góðum ásetningi, liggur til ánauðar. Hvað er næst á listanum? Sjónvarpið sem menn fitna og stirðna fyrir framan? Sófarnir og hægindastólarnir sem gera sjónvarpsglápið svo þægilegt? Tölvan og óravíddir internetsins þar sem bumba notandans skríður hægt og örugglega yfir beltissylgjuna? Bækur og sjónvarpsþættir þar sem fjallað er um bækur og hvatt til lesturs og þar með kyrrstöðu? Einkabíllinn sem gerir mönnum mögulegt að fara milli staða án þess að svitna?
Það er ekki gott að segja. Þegar stjórnmálamenn eru á annað borð komnir með grænt ljós á þessari leið er getur hver sem er orðið undir næsta góða ásetningi.