Vefþjóðviljinn 153. tbl. 16. árg.
Íslenskufræðingarnir sem skrifa vikulega um íslenskt mál í sunnudagsblað Morgunblaðsins hafa undanfarnar vikur hvatt til þess að menn bindist samtökum um að flæma orðin ókei og bæ úr daglegu talmáli. Sú tillaga er ágæt en fleiri orð mættu heyrast sjaldnar.
Í vikunni var kosinn nýr formaður Lögmannafélags Íslands. Í samtali við Morgunblaðið kvaðst hinn nýkjörni auðvitað vilja þakka „meðframbjóðanda“ sínum drengilega kosningabaráttu.
Hvað á þetta „meðframbjóðenda“-tal að þýða? Er ekki hægt að bindast landsamtökum um að hætta að kalla mótframbjóðendur meðframbjóðendur? Er ekki alveg nægt rugl í landinu fyrir, þó þessu sé ekki leyft að festast í sessi.
Það er munur á mótframbjóðendum og meðframbjóðendum. Barack Obama og Joseph Biden eru meðframbjóðendur. Samfylkingin og Ríkisútvarpið eru meðframbjóðendur. En þeir sem keppa um sama sæti, hvor gegn öðrum, eru mótframbjóðendur. Það er fölsun að kalla þá meðframbjóðendur.