Þriðjudagur 13. mars 2012

Vefþjóðviljinn 73. tbl. 16. árg.

Það kemur ágætlega fram í Landsdómi hve einkennilegt hlutverk ríkis á fjármálamarkaði er. 

Seðlabanki þarf til að mynda að skila áliti á stöðu fjármálakerfisins en um leið að gæta þess að setja kerfið ekki um koll með því að segja hráan sannleikann. Um leið og fjármálafyrirtækin rata í ógöngur þarf seðlabanki að vissu leyti að breiða yfir vandann á meðan leitað er leiða út úr honum. 

Seðlabanka er jafnframt ætlað að draga veikburða fjármálafyrirtæki að landi með ýmis konar fyrirgreiðslu. Hvers eiga þau fyrirtæki að gjalda sem enga slíka aðstoð þiggja? Hvaða áhrif hefur það á eðlilega endurnýjun á þessum markaði þegar ríkið reynir sífellt að halda lífi í þeim fyrirtækjum sem fyrir eru?

Í þriðja lagi á seðlabanki einnig að fínstilla hagkerfið með stýrivöxtum og peningamagni. Hvaða fínstillingu ætti helst að nefna til sögunnar? Fínisseringu Seðlabanka Evrópu á vöxtum í Suður-Evrópu og Írlandi á árunum fyrir 2008? Vaxtastefnu bandaríska seðlabankans frá 2001? Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands frá 2001 sem aldrei hafa náðst og enduðu með því að krónan er í raun ekki til sem gjaldmiðill?

Fjármálaeftirlit ríkisins er í svipaðri klemmu. Á eftirlitið að stöðva nýja starfsemi banka sem gæti þó kannski bjargað bankanum frá falli? Getur það leyft sér að gefa út ágætiseinkunn fyrir „álagspróf“ banka þegar slíkt próf segir þó aðeins hálfa söguna?

Ætli fjármálakerfi Vesturlanda væri í meiri klessu ef slíkar stofnanir hefðu aldrei verið til?