Vefþjóðviljinn 50. tbl. 16. árg.
Tveir menn á sextugsaldri hafa greitt í 30 ár í sama lífeyrissjóðinn. Annar skuldar sjóðnum 25 milljónir króna í verðtryggt húsnæðislán en hinn ekkert. Nú er þess krafist að verðtryggða lánið verði „leiðrétt“ eða „fært niður í það sem það var fyrir hrun“ sem eru tvö ný hugtök um gjöf.
Eftir að dómur gekk í vikunni um lán í erlendri mynt hefur svo bæst við kenning um að „fólk með verðtryggðu lánin sitji eftir með sárt ennið“ eins og menn með verðtryggð lán eigi einhverja dularfulla aðild að málaferlum fólks með lán í erlendri mynt.
En hvað þýðir það að lán skuldarans sem nefndur var hér að ofan verði „leiðrétt“ um segjum 20%? Jú skerða þarf lífeyrisrétt þess sem skuldar sjóðnum ekkert. Er það sanngjörn „leiðrétting“ að lífeyrir hans skerðist vegna skulda annarra sjóðsfélaga?
Vísitala neysluverðs hækkaði um 37% frá 1. janúar 2008 til 1. janúar 2012. Það er um rúm 8% á ári. Ætlar einhver að halda því fram að 8% verðbólga á ári á Íslandi hafi komið mönnum í opna skjöldu? Og það í miðju bankahruni? Þótt seðlabanki landsins hafi í um árabil stefnt að því að verðbólga sé ekki mikið hærri en 2 – 3% hefur það nær aldrei tekist nema í augnablik, aldrei um lengri tíð.
Það ber jafnframt að hafa í huga að launavísitala hefur hækkað um 27% á þessum sama tíma, svo þeir sem á annað borð hafa haft vinnu hefðu elt hækkun lána að einhverju leyti upp með hærri launum ef ekki væri fyrir aukna skattpíningu.
Lífeyrissjóðir eru heldur ekki þeir einu sem veita verðtryggð lán. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær rekur ríkið Íbúðalánasjóð sem á 650 milljarða króna hjá heimilum landsins í slíkum lánum. Fyrrnefnd 20% „leiðrétting“ myndi kosta ríkissjóð 130 milljarða króna í gegnum Íbúðalánasjóðinn þótt vafalaust muni hvort eð eitthvað af þessum fjármunum glatast. Að auki á ríkið Landsbankann. Þessi 20% „leiðrétting“ gæti því kostað ríkissjóð í áttina að 200 milljörðum króna. Það jafngildir öllum hlut ríkisins í tekjuskatti einstaklinga í tvö ár.
Fyrr en síðar þyrfti að hækka skatta vegna svo gríðarlegra útgjalda. Er sanngjarnt að þeir sem skulda lítið af húsnæðislánum, leigja eða eru einfaldlega nýkomnir í vinnu og ekki búnir að festa sér húsnæði greiði hærri skatta en ella vegna „leiðréttingar“ á verðtryggðum lánum annars fólks? Lána sem allir vissu að gátu hækkað um 10, 20 eða 30% á ári ef saga íslenskra peningamála kennir mönnum eitthvað.
Það er því vandséð hvernig það verður réttlætt að þvinga fram slíkar „leiðréttingu“ með lögum. Hins vegar geta lánveitendur í einkaeigu að sjálfsögðu komið til móts við lánþega sína og deilt með þeim áfallinu. Arionbanki gerði það til að mynda um síðustu áramót þegar hann endurgreiddi viðskiptavinum sínum sem nemur um 0,8% af höfuðstól lána.