Mánudagur 13. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 44. tbl. 16. árg.

Fréttablaðið birti um helgina dæmigerða vælfrétt á forsíðu sinni. Það var eina frétt forsíðunnar svo búast má við að mikið hafi verið í húfi.

Sennilega hefur þennan dag ekkert verið að frétta af sameiginlegri forsjá, launamuni kynjanna eða sigurgöngu evrunnar, svo Fréttablaðið varð að láta sér nægja að slá upp hinum válegu tíðindum: „Fjarnámið helmingi dýrara“.

Fréttin var sú, að „grunnkostnaður við að ljúka stúdentsprófi í fjarnámi“ hafi tvöfaldast frá bankahruni, farið úr 370.000 krónum í 740.000 krónur, sé miðað við fjögurra ára nám. Þetta töldu viðmælendur blaðsins ekki gott, því fjarnáminu hefði verið ætlað að stuðla að „félagslegu réttlæti“. 

Hvergi í fréttinni nefndi nokkur maður það atriði að sá sem stundar fjarnám hefur þar með kost á að vera á vinnumarkaði á sama tíma. Sá sem er fjögur ár í fjarnámi, sem alls kostar 740.000 krónur sem greiða þarf í áföngum með hverri einingu sem lokið er, þarf að meðaltali að greiða um 15 þúsund krónur á mánuði þann tíma, fyrir námið. Er það „félagslegt óréttlæti“ og forsíðufrétt?