Vefþjóðviljinn 16. tbl. 16. árg.
Á dögunum var maður nokkur ráðinn í gríðarlega mikilvægt starf hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, því auðvitað þurfa opinberir aðilar að þróa atvinnumálin sem ekki geta þróast af sjálfu sér. Hvað um það, í starfið var ráðinn maður sem hefur stöðu sakbornings hjá sérstökum saksóknara og eru margir reiðir yfir því, þar á meðal bæjarfulltrúi vinstrigrænna fyrir norðan. Segja sumir að sakborningurinn eigi fyrst að hreinsast af öllum grunsemdum, áður en hann er ráðinn í opinber störf.
Nú er rétt að taka fram, að staða sakbornings hjá sérstökum saksóknara er ekki sérstakt starf hjá embættinu, heldur réttarstaða sem lögregluyfirvöld veita manni sem er til rannsóknar. Mun sérstakur saksóknari vera heldur örlátur á þessa réttarstöðu, rétt eins og fréttir herma að hinn sérstaki saksóknari hafi farið mikinn í símahlerunum undanfarið.
Hvað sem því líður, þá er áhugaverð spurningin um almenn borgararéttindi þeirra sem fengið hafa „réttarstöðu sakbornings“, hvort sem er hjá sérstökum saksóknara vegna vafasamra viðskipta, eða hjá einstökum lögreglustjórum vegna annarra brota sem eru til rannsóknar. Er viðeigandi að slíkir menn fái að gegna störfum á meðan þeir „eru til rannsóknar“?
Þeir sem vilja ekki að fólk sem er „til rannsóknar“ fái starf á meðan á rannsókn stendur, ætli þeir hafi velt fyrir sér bótaábyrgð ríkisins gagnvart þeim sem er „til rannsóknar“? Það getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir mannorð fólks að vera til slíkrar „rannsóknar“, en allt slíkt spyrst út á örskömmum tíma. Sumir munu aldrei bíða þess bætur, hver sem niðurstaða mála verður að öðru leyti. Ef nú á að bætast við, að þeir sem eru „til rannsóknar“ megi helst ekki vinna fyrir sér, hugsanlega í nokkur ár, á meðan á rannsókn stendur, þá eykst enn tjón þeirra, þó fjárhagstjónið verði líklega alltaf barnaleikur hjá hinu.
Eru menn til í það, að ríkið greiði því fólki bætur þann tíma sem það er útskúfað fyrir að hafa „réttarstöðu sakbornings“? Ef ekki, hvernig ætla menn þá að setja þá almennu reglu að slíkt fólk megi ekki sækja um og fá störf sem eru laus? Frá þessu geta auðvitað verið undantekningar. Menn myndu ekki ráða mann, sem sætti rannsókn fyrir kynferðisbrot gegn barni, sem forstöðumann barnaheimilis, svo augljóst dæmi sé tekið, en hér eru almennu sjónarmiðin til umfjöllunar.
Það er sjálfsagt að rannsaka hugsanleg brot í rekstri viðskiptabankanna og annarra fjármálafyrirtækja árin fyrir bankahrun. En blóðþorstinn sem víða ríkir, og fordæmingin sem svo stutt er í, á lítið skylt við réttarríkið. Sumir virðast til dæmis halda að gæsluvarðhald sé ætlað til að refsa brotamanni, en ekki liður í rannsókn.
Stundum virðist á umræðunni sem endaskipti hafi orðið á hlutum á aðeins örfáum árum. Fyrir fáum árum töluðu álitsgjafar, fjölmiðlamenn og stór hluti almennings sig hása um að rannsóknir meintra efnahagsglæpa væru í raun ofsóknir öfundarmanna blásaklausra athafnaskálda. Nú virðist sami dómstóll götunnar og þá var fljótur að sýkna, ætla sér að vera núna jafnfljótur að sakfella. Það virðist vera það eina sem dómstóll götunnar virðist ætla að læra af fyrri frammistöðu sinni.