Vefþjóðviljinn 1. tbl. 16. árg.
Á nýju ári vill Vefþjóðviljinn fyrst af öllu biðjast velvirðingar á því að hafa sleppt grís ársins í áramótaútgáfu í gær. Það hafði sínar afleiðingar. Sumir geta bara ekki verið án athyglinnar.
En ef það er nokkurt fyrirbæri í víðri veröld sem getur komið á óvart er það einstaklingurinn.
Þeir sem voru upp á fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar hefðu getað sagt eitthvað á þessa leið:
Við þurfum öll – einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera – að temja okkur aukið aðhald, hætta að treysta á lántökur og gjalddaga í framtíðinni, ákveða að hefjast ekki handa um framkvæmdir fyrr en söfnun fjármuna hefur skapað sjóði. Undanfarna áratugi hafa umsvif hins opinbera aukist til muna, starfsfólki fjölgað í ráðuneytum og þorra stjórnarstofnana. Slíkt er sjálfsagt að vissu marki nauðsynlegt eigi Ísland að halda í við helstu samstarfsríki en samt er hægt að gæta hófs og skila sínu á annan hátt. Þótt mörgum hafi fundist nóg um umsvif forsetans á liðnum árum hefur starfsmönnum á forsetaskrifstofunni ekki fjölgað í rúm 20 ár. Þeir eru enn fjórir eða jafn margir nú og um 1990. Ef forsetaembættinu tekst í áratugi að sinna auknum verkefnum með óbreyttum starfsmannafjölda hví þurfa þá aðrir þættir ríkisvaldsins sífellt að vaxa? Er ekki kominn tími til að meta á ný umfang stjórnkerfisins sem þjóðinni er ætlað að bera og gera það óbundin af gömlum kennisetningum? Við endurskipan þess og uppstokkun gætu fengist fjármunir til að auka velferð og hagsæld, efla atvinnulíf, menntun og menningu.
Þetta hefði mátt endurtaka þegar Geir H. Haarde fjármálaráðherra hafði samþykkt ásamt ýmsu öðru á árum nýfrjálshyggjunnar að hátekjumenn fengu 80% launa sinna frá Tryggingastofnun ríkisins í fæðingarorlofi og byggt skyldi tónlistarhús með mörg hundruð milljóna króna árlega áskrift að launaumslögum Íslendinga í 35 ár.
Aftur hefði mátt hafa þetta yfir árið 2007. Þá höfðu ríkisútgjöld á föstu verðlagi aukist um 28% frá árinu 1998. Ríkisútgjöldin á þessu tímabili uxu hraðar en það sem hefur að hluta verið réttilega nafnt bóluvöxtur landsframleiðslunnar.
Heildarútgjöld hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) á þessum áratug fóru úr 243 milljörðum króna í 553 milljarða á verðlagi hvors árs. Engu að síður samþykktu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin fjárlög fyrir árið 2008 með svo gríðarlegri aukningu útgjalda að hvorugur flokkurinn hefur talið mögulegt að mögur ár gætu verið framundan þar sem þörf væri á fjárhagslegu svigrúmi fyrir ríkissjóð. Vinstri grænir veinuðu og góluðu að þessu tilefni að skorið væri inn að beini í ríkisrekstrinum og vegið að velferðarkerfinu.