Helgarsprokið 25. desember 2011

Vefþjóðviljinn 359. tbl. 15. árg.

Það hefur líklega enginn sveinn keppt við Mario Draghi í gjafastússi fyrir þessi jól. The Wall Street Journal sagði frá því í gær að hinn nýi bankastjóri Seðlabanka Evrópu hefði puðrað út 489 milljörðum evra (78 þúsund milljörðum króna eða fjárlög íslenska ríkisins í 125 ár) til 523 banka vítt og breitt um álfuna. Stuðningurinn var veittur sem lán til þriggja ára. Þetta er mesta lausafjárfyrirgreiðsla í sögu ECB. 

Draghi hefur ekki dregið af sér í tilraunum til að sannfæra menn um að spreðið sé hluti af eðlilegri starfsemi seðlabanka. En venjulega myndu seðlabankar fara fram á hærri vexti og auknar tryggingar frá bönkum sem fengju slíka fyrirgreiðslu. Svo er ekki að þessu sinni. Lánin eru með 1% vöxtum og í sumum tilfellum aðeins gerð krafa um veð í bréfum með einfalt A í einkunn.  The Wall Street Journal segir að þetta sé de facto ríkisstyrkur til bankanna 523. Enda eru ríkisstyrkir og mismunun bönnuð í ESB. Blaðið segir að minnsta kosti tveir ítalskir bankar hafi lært grísku og portúgölsku handbrögðin og gefi út skuldabréf á sjálfa sig sem þeir leggi svo fram sem tryggingar hjá ECB.

Væntingar eru um að bankanir 523 muni nota hluta af þessum ríkisstyrk til að… kaupa ríkisskuldabréf af ríkissjóðum álfunnar. Sjálfur franski forsetinn hvatti bankana til þess og seðlabankastjórinn viðurkennir að til þess sé ætlast.

Hér virðist gerð stórbrotin tilraun til að afsanna það sem Frédéric Bastiat orðaði svo að „ríkið væri goðsögnin mikla um að allir gætu lifað á kostnað allra annarra.“

Seðlabanki evruríkjanna prentar einfaldlega peninga handa einkabönkum ríkjanna svo þeir geti haldið sjó og lánað skuldsettum evruríkjum peninga til að halda áfram veisluhöldunum sem þau hafa ekki efni á. Um leið slá menn því að frest að viðurkenna að ríkin geta aldrei endurgreitt skuldir sínar og bankarnir sem lánuðu þeim muni tapa stórfé á ríkisskuldabréfunum sem sérfræðingar hafa um árabil kallað „örugga fjárfestingu.“

Þetta er alveg dæmalaus hringavitleysa því hún hefur aldrei farið fram með svo samstilltu átaki í fjölda ríkja samtímis. Hins vegar er þetta gamalt húsráð ríkisstjórna, allt frá því þær tóku sér einkaleyfi á útgáfu gjaldmiðla. Prentvélarnar eru settar í gang og valdir aðilar, yfirleitt fjármálafyrirtæki, fá volg seðlabúntin til að „koma í veg fyrir samdrátt“ og deila til valinna aðila. Smám saman leiðir aukið framboð auðvitað til lægra virðis og seðlarnir falla í verði með því sem nefnt er verðbólga. Og hér að komið að brilljansinum í þessu öllu saman fyrir stjórnmálamennina, ekki síst þá stjórnlyndu. Frá bæjardyrum hins almenna neytanda séð eru það vörurnar sem hækka í verði hjá gráðuga kaupmanninum en ekki ónýta mynt stjórnvaldanna sem fellur í verði. Er ekki ASÍ með verðlagseftirlitið í sölubúðum frekar en seðlabankanum?

Á sama hátt álykta menn að „græðgisvæðing“ á markaði leiði af sér verðbólur og kreppur eftir að ríkisseðlabankar hafa ruglað alla fjárfestingu á markaði með því að dæla út fjármagni á alltof lágum vöxtum. Nákvæmlega það sem ECB var að gera í vikunni fyrir jól.

Þar með fá stjórnmálamennirnir tækifæri til að taka sér aukin völd, hækka skatta og setja nýjar og hertar reglur á nokkurra ára fresti „til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur.“