Vefþjóðviljinn 358. tbl. 15. árg.
Ætli margir menn hafi verið voldugri um sína daga en Ágústus keisari? Þegar hann ákvað að láta skrá skattþegna sína, til að auðvelda innheimtuna, þá stóð Rómaveldi í slíkum blóma að sagt var að nú skyldi skrásetja alla heimsbyggðina. Slíkt hafði aldrei verið ráðist í áður, enda Ágústus og veldi hans einstakt. En jafnvel hann hefði líklega orðið hissa ef honum hefði verið sagt að tvöþúsund árum síðar yrði þetta framtak enn í minnum haft. Og enn frekar ef hann hefði vitað ástæðuna.
Og Kýreníus, sem þó hefur vafalaust talið sig halda vel á spöðunum sem landstjóri á Sýrlandi, hefði sjálfsagt ekki heldur búist við að hann sjálfur yrði nefndur á nafn í flestum löndum heims tvöþúsund árum síðar. Enn síður hefði hann búist við því að frægð sína ætti hann að þakka atburði í lítilli fjölskyldu sem enginn maður hafði áður heyrt getið, en hafði með ærinni fyrirhöfn hlýtt skipun fjarlægs keisara, farið til skrásetningar og fengið inni í litlu gripahúsi.
Rómverska ríkið efndi til hins mikla atburðar, opinberrar skrásetningar hvers einasta manns, sem þaðan í frá skyldi fá að gjalda skattfé til eyðsluseggjanna í Róm. Það ríki fór sína leið með tíð og tíma. Opinberar kúnstir, sem lengst eiga að standa og mest fyrirhöfn er lögð í, eyðast gjarnan og hverfa sem slík. En svo er annað sem lifir, þótt þar hafi fáir vænt nokkurs í öndverðu.
Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.