Vefþjóðviljinn 357. tbl. 15. árg.
Það er þægileg skýring fyrir marga að fjármálakerfið hafi farið sér að voða vegna þess að Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra seldi pörupiltum íslensku ríkisbankana. Þessi kenning fríar íslenska umræðastjóra til að mynda frá því að ræða kosti og galla þess að ríkisvald gefi út innihaldslausa gjaldmiðla, stýri verði á þeim og rugli allt hagkerfið.
Skýringin gengur að vísu ekki upp hvað varðar Glitni, sem féll fyrstur íslenskra banka haustið 2008, en látum það ekki skemma góða söguskýringu í bili.
Hér má finna lista bandaríska innstæðutryggingakerfisins yfir bandaríska banka sem ekki hafa getað staðið við skuldbindingar sínar síðan árið 2000. Frá 2000 til 2007 urðu 27 bandarískir bankar afvelta, svona þrír til fjórir á ári. Frá 2008 og fram á þennan dag eru þeir 420, yfir hundrað á ári og menn eru ekki hættir að telja.
Þessu til viðbótar hefur gríðarlegum fjölda fjármálafyrirtækja verið bjargað með alls kyns fyrirgreiðslu hins opinbera.
Ekki er geðslegra um að litast í Evrópu þar sem útblásin og stórskuldug velferðarríki fá nú gjaldþrota bankakerfi sín í fangið.
Það er Valgerður víða.
Eftir að búið er að skella skuldinni á Valgerði er svo auðvitað rökrétt ályktun álitsgjafanna að við þurfum að fá konur til að taka til eftir hrunið.