Vefþjóðviljinn 356. tbl. 15. árg.
Mikið eru þeir þreytandi, þessir velviljuðu ofstækismenn sem eru alltaf að skipta sér af því hvernig annað fólk lifir sínu lífi.
Í gær skrifaði Sigríður Ólína Haraldsdóttir lungnalæknir grein í Morgunblaðið um hugaðarefni sitt, baráttuna gegn frelsi annars fólks til að njóta tóbaks. Sigríður Ólína þessi er til dæmis mjög æst yfir reykingum sem sjást í kvikmyndum og hefur starfað með hópi alþingismanna sem vilja nota ríkisstyrkjasvipuna til að knýja leikstjóra til að hætta að láta persónurnar reykja.
„Það er með ólíkindum hve mikið er reykt í íslenskum kvikmyndum og á leiksviði hérlendis. Þessar reykingar gefa ekki raunsanna mynd af tíðni reykinga hér á landi“, segir Sigríður Ólína og lætur eins og sér sé alvara. Hún virðist halda að kvikmyndir eigi að sýna staðalmynd af venjulegum degi í lífi venjulegs fólks, sem eins mætti fá með falinni myndavél. Úr því Sigríður Ólína virðist halda að sama hlutfall kvikmyndapersóna og raunverulegra persóna eigi að reykja, þá væri gaman að heyra frá henni hvort þessi regla eigi einnig við á öðrum sviðum. Ætli það gæti ekki verið, ef Sigríður Ólína myndi mæla fleira, að hún kæmist að því óeðlilega hátt hlutfall kvikmyndapersóna væru harðsvíraðir glæpamenn, úrillir lögreglumenn, húðflúraðir hálfvitar og sætar stelpur. Raunar myndi hún líklega komast að því að íslenskar kvikmyndir gefa svo brenglaða mynd af raunveruleikanum að í þeim finnst líklega hvergi ofstækisfullur lungnalæknir sem telur sig hafa svo góðan málstað að hann megi stjórna því hvernig samborgarar hans lifa lífinu.
Og ef menn halda að Sigríður Ólína tali ekki fyrir munn ofstækismanna, þá ættu þeir að lesa grein hennar í Morgunblaðinu í gær. Þar eru til dæmis gullkorn eins og þetta um reykingar í kvikmyndum: „Mjög margir, sem ekki reykja, tala um að þetta fari í taugarnar á þeim, þeir hætta að fylgjast með framvindu myndarinnar og taka bara eftir reykingunum, sem þrátt fyrir allt eiga varla að vera aðalatriði myndarinnar.“