Miðvikudagur 21. desember 2011

Vefþjóðviljinn 355. tbl. 15. árg.

Það vakti ekki mikla athygli fjölmiðla að meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis treysti helst ekki Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra til að halda á hagsmunum Íslendinga fyrir erlendum dómstólum vegna innlánsreikninga einkabanka sem tryggðir voru hjá sjálfstæðum innstæðutryggingasjóði án ríkisábyrgðar.

Utanríkismálanefnd er ekki fyrst til að lýsa því yfir að Össur hafi takmarkaða þekkingu á bankamálum. Á síðu 26 í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir: 

Sigríður Logadóttir, sem var einn þeirra fáu starfs- manna Seðlabankans sem var kallaður út þetta sunnudagskvöld, segir að henni hafi orðið það: „sérstaklega minnisstætt að þegar fundurinn er að hefjast þá snýtir Össur sér og segir yfir fundarborðið að hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum.“ 

Akkúrat ekkert. En hér ber auðvitað að hafa þann fyrirvara að það er Össur Skarphéðinsson sem segir þetta.