Mánudagur 19. desember 2011

Vefþjóðviljinn 353. tbl. 15. árg.

Jólabókaflóðið er nú að ná hámarki. Í Bóksölu Andríkis hafa þannig bæst svo margar bækur undanfarið að menn þurfa vart að fara annað eftir jólagjöfum, nema auðvitað til að kaupa ævisögu Keith Richards sem allir alvörumenn gefa til að sýna öðru fólki samhengi hlutanna.

Og af því að þessa dagana þurfa flestir að æða um bæinn að kaupa gjafir, þá er eðlilegt að rifja upp hvað hefur bæst í Bóksölu Andríkis undanfarnar vikur, en þar er eitthvað fyrir alla sem ekki eru eingöngu að leita að æsispennandi skandinavískum reyfara þar sem miskunnarleysi græðginnar fær makleg málagjöld, þökk sé upplýstri lögreglukonu sem einnig er sjálfboðaliði hjá Unifem.

Í bókinni Icesavesamningarnir – afleikur aldarinnar? skyggnist Sigurður Már Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins, bak við tjöldin og lýsir vinnubrögðum og niðurstöðum samninganefnda Svavars Gestssonar og Lee Buchheits. Deilurnar um samningana eru raktar sem og afskipti forseta Íslands af málinu. Þá er farið yfir ýmis stóryrði sem féllu á Alþingi og í fjölmiðlum um Icesave, klofninginn vegna málsins í röðum Vinstri grænna og gjörólíka afstöðu margra kunnustu fræðimanna landsins.  

Í Síðustu vörninni, fjallar Óli Björn Kárason, stofnandi Viðskiptablaðsins, um dóma í umtöluðum sakamálum og leiðir líkur að því að eftir þá dóma hafi ýmislegt, sem áður hafi verið talið ólögleg, verið álitið löglegt. Hafi það opnað dyrnar fyrir fjölmargt sem síðar hafi farið miður í viðskiptalífinu og dregið mátt úr þeim sem störfuðu að rannsókn efnahagsbrota. 

Í Íslenskum kommúnistum rekur Hannes H. Gissurarson, lesandi Viðskiptablaðsins, sögu tegundarinnar allt frá því Brynjólfur Bjarnason tók þátt í götuóeirðum í Kaupmannahöfn haustið 1918 og þar til Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir þáðu heimboð Kommúnistaflokks Kúbu haustið 1998. Það er ekki út af engu sem vinstrimenn hata Hannes og vilja flest gera til að draga úr trúverðugleika hans. Bókin er afar lipurlega skrifuð og fróðleg.

Roðinn í austri er vandað sagnfræðirit eftir Snorra G. Bergsson, þar sem hann fjallar um Alþýðuflokkinn, Komintern og kommúnistahreyfinguna á Íslandi í lok annars áratugarins og fyrri hluta þess þriðja. Þá var að hefjast mikil barátta um örlög Íslands. Moskvuferðir íslenskra kommúnista hefjast og Alþýðuflokkurinn er skráður í Komintern. Vönduð bók um mikið efni, sem sagnfræðigrúskarar hafa mikið gaman af. 

Uppsprettan er í hópi áhrifamestu skáldsagna sem komu út í Bandaríkjunum á síðustu öld, þó hér á landi hafi líklega fáir heyrt hennar, og höfundarins, Ayn Rand, getið að ráði. Hvaða málamiðlanir gera einstaklingshyggjumenn í lífinu? Tímamótaverk sem vitibornir menn ættu að lesa.

Og í lokin er rétt að minna á tvær bækur sem út komu í sumar og seldust afar vel. Metsölubók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, er mögnuð frásögn og ekki síður mögnuð, en gerólík, er bókin um daglegt líf undir ógnarstjórninni í Norður-Kóreu, Engan þarf að öfunda. Þær lýsingar eru svo ótrúlegar að ótrúleikinn ykist ekki þótt þær kæmu út sem hljóðbók í lestri Jóhönnu Sigurðardóttur.

Heimsending innanlands er alltaf innifalin í verði bóka í bóksölunni.