Helgarsprokið 4. desember 2011

Vefþjóðviljinn 338. tbl. 15. árg.

Samfylkingin þiggur fé og húsaskjól af Sigfúsarsjóði, sem ætlað er að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi. Hvaðan kom auður Sigfúsarsjóðs?
Samfylkingin þiggur fé og húsaskjól af Sigfúsarsjóði, sem ætlað er að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi. Hvaðan kom auður Sigfúsarsjóðs?

Í fréttum vikunnar voru þau tíðindi að Samfylkingin hefði þegið 300 þúsund krónur úr Sigfúsarsjóði á síðasta ári. Sigfúsarsjóður var stofnaður árið 1952 til minningar um Sigfús Sigurhjartarson, þingmann Sósíalistaflokksins og ritstjóra Þjóðviljans. Tilgangur sjóðsins var samkvæmt stofnskrá að „reisa og reka samkomuhús og starfsmiðstöð fyrir íslenska alþýðu og flokk hennar, Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn.“

Árið 1968 var skipulagsskrá Sigfúsarsjóðs breytt, um sama leyti og Sósíalistaflokkurinn var lagður niður og Alþýðubandalagið formlega stofnað. Breytingin var á þá leið að sjóðurinn skyldi „reisa og reka húsnæði fyrir Sósíalistaflokkinn eða hvern þann sósíalistískan fjöldaflokk, sem tekur við hlutverki hans að dómi sjóðsins, eða að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi á annan hátt.“

Frá árinu 1999 hefur sjóðurinn verið nýttur í þágu Samfylkingarinnar, fyrst til að greiða niður miklar skuldir sem Margrét Frímannsdóttir taldi hafa komið óvænt í ljós eftir að hún tók við af Ólafi Ragnari Grímssyni sem formaður Alþýðubandalagsins árið 1995. Sérstakt átak í greiðslu þessara tugmilljóna skulda var að sögn Margrétar gert með aðstoð Sigfúsarsjóðs á árunum 1999 – 2000 en Alþýðubandalagið bauð fyrst fram undir merkjum Samfylkingarinnar 1999. Væri fróðlegt að fregna hve háir styrkir Sigfússarsjóðs til Alþýðubandalagsins og/eða Samfylkingarinnar voru á þessum árum í samanburði við einstaka styrki sem flokkar og frambjóðendur hlutu heldur bágt fyrir á árunum 2005 til 2007.

Í Morgunblaðinu 22. september 2000 er eftirfarandi haft eftir Margréti Frímannsdóttur formanni flokksins:

Búið er að ganga frá og greiða niður nær allar skuldir Alþýðubandalagsins, samtals um 30 milljónir króna, að sögn Margrétar Frímannsdóttur, formanns Alþýðubandalagsins. Eftir standa skuldir upp á nokkrar milljónir króna sem fylgja munu alþýðubandalagsmönnum inn í Samfylkinguna. Að sögn Margrétar var gengið frá skuldunum fyrr í sumar með framlögum úr styrktarmannakerfi flokksmanna Alþýðubandalagsins og Sigfúsarsjóði en það er sjóður sem hefur það hlutverk að styðja fjöldahreyfingu vinstri manna á Íslandi. “Það hefur verið vilji forystu Alþýðubandalagsins og forystu Sigfúsarsjóðs að Alþýðubandalagið skildi hvergi eftir sig neina skuldaslóð og við teljum okkur hafa staðið við það,” segir Margrét.

Hér má blasa við að styrktarmannakerfi flokks með nokkur þúsund félagsmenn skilar aldrei nema nokkrum milljónum á ári. Sigfúsarsjóður hefur vafalaust lagt flokknum til að lágmarki 20 milljónir króna árið 2000. Það samsvara nær 40 milljónum á núverandi verðlagi.

Árið 2004 tók Sigfúsarsjóður svo þátt (50%) í kaupum  á húsnæði því á Hallveigarstíg 1 sem hýst hefur skrifstofur Samfylkingarinnar upp frá því. Þar leigir væntanlega Samfylkingin plássið af Sigfúsarsjóði því flokkurinn má ekki lögum samkvæmt þiggja hærri stuðning frá einum lögaðila en kr. 400 þúsund krónur, húsaleiguhlunnindi þar með talin. Leiga á hlut Sigfúsarsjóðs í húsnæði Samfylkingarinnar væri að lágmarki 3 milljónir króna á ári miðað við gangverð á leiguhúsnæði á þessu svæði. Greiðir Samfylkingin þessa leigu til sjóðsins sem vinnur að framgangi sósíalismans?

En:

*Til að hafa allt upp á borðum er ekki til þinglýstur leigusamningur milli Samfylkingar og Sigfúsarsjóðs.

*Af því að Samfylkingin er búin að marglofa opnu bókhaldi sést ekkert um það í reikningum hennar hvað hún greiðir Sigfúsarsjóði í leigu.

*Til að auka gagnsæi hefur Sigfúsarsjóður ekki skilað ársreikningi til ársreikningaskrár frá árinu 2000, ef nokkru sinni, sem honum ber þó lögum samkvæmt sem sjálfeignarstofnun.

*Til að auka traust í samfélaginu fær enginn að vita hvaðan fé kom upphaflega í Sigfúsarsjóð.

Vilhjálmur Þorsteinsson frjálslyndur jafnaðarmaður stýrir nú fjármálum Samfylkingarinnar. Mun flokkurinn áfram þiggja húsaskjól og fé úr Sigfúsarsjóði?
Vilhjálmur Þorsteinsson frjálslyndur jafnaðarmaður stýrir nú fjármálum Samfylkingarinnar. Mun flokkurinn áfram þiggja húsaskjól og fé úr Sigfúsarsjóði?

Nýlega tók Vilhjálmur Þorsteinsson við fjármálum Samfylkingarinnar sem gjaldkeri. Hann hefur um árabil hefur farið fyrir hinum þversagnakennda hópi sem nefnir sig frjálslynda jafnaðarmenn. Það væri auðvitað nokkuð sérstakt að maður sem titlar sig frjálslyndan jafnaðarmann þæði fé til stjórnmálastarfs frá félagi sem hefur það beinlínis að markmiði að „vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi.“

Því má einnig velta upp hvort Vilhjálmur og aðrir helstu aðstandendur Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir formaður og Dagur B. Eggertsson varaformaður, hafi hugmynd um hvaðan auður Sigfúsarsjóðs er kominn. Eru þau viss um að hann hafi ekki verið fenginn í austurvegi eins og svo margt annað skotsilfur íslenskra vinstri manna undanfarin 90 ár? Rétt eins og kemur svo skýrt fram í hinni nýju bók Íslenskir kommúnistar 1918 – 1998? Ef Sigfúsarsjóður hefur ekki fengið framlög frá Moskvu er hann sannlega sér á parti meðal félaga íslenskra sósíalista.

Það þarf væntanlega ekki að rekja það í löngu máli hvaða þýðingu það hefði ef heimanmundur Alþýðubandalagsins í Samfylkinguna og stuðningur Sigfúsarsjóðs við Samfylkinguna undanfarinn áratug væri byggður á fjárframlögum frá einni verstu harðstjórn 20. aldar. Það væri sambærilegt við að illa fengið fé þýskra þjóðernissósíalista væri í umferð í stjórnmálastarfi hér á landi.

Er nokkuð því til fyrirstöðu að hinn frjálslyndi jafnaðarmaður, sem heldur nú um pyngju Samfylkingarinnar, upplýsi hvernig sambandi flokksins og forvera hans við Sigfúsarsjóð hefur verið háttað?

Málið má einnig nálgast úr annarri átt. Ef Vilhjálmur Þorsteinsson gjaldkeri telur ekki að Samfylkingin sé sósíalístískur flokkur sem vinni að framgangi sósíalismans, hvað þykir honum þá um að samþykktir Sigfúsarsjóðs hafi verið brotnar með því að styrkja Samfylkinguna? Væri ekki nærtækara að Sigfúsarsjóður styrkti VG? Nú eða bara Nýhil sem vantar spons eftir að Landsbankinn fór um koll?

En auðvitað er borin von til þess að Samfylkingin upplýsi um nokkuð sem máli skiptir í fjármálum sínum. Það er löng hefð fyrir því að jafnvel dyggum félögum í flokkum vinstri manna sé ekki svarað einu orði þegar þeir spyrja einfaldra spurninga fjármál flokka sinna.