Vefþjóðviljinn 297. tbl. 15. árg.
Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar vikulega pistil í blaðið og sannar í þeim flestum að ekki eru allir Samfylkingarmenn óþolandi. Að vísu er rétt að taka fram, að fæstir pistla hennar um Evrópusambandið nýtast að ráði til slíkrar sönnunar, en við því var heldur ekki búist sérstaklega. En yfirleitt er Kolbrún skýr í hugsun, lifandi pistlapenni og hressandi í morgunsárið á fimmtudögum.
Í pistli sínum síðasta fimmtudag fjallaði hún um taugaveiklunina sem varð þegar Páll Magnússon var ráðinn forstjóri óþarfrar stofnunar, Bankasýslu ríkisins:
Hann hafði ekki fyrr verið ráðinn í hið nýja starf en athyglissjúkur alþingismaður skundaði upp í pontu á Alþingi og sagði ráðninguna hneyksli. Þegar orðið „hneyksli“ er hrópað í íslenskri þjóðfélagsumræðu er öruggt að stór hópur fólks tekur gleðikipp og byrjar samstundis að blogga. Því finnst svo gaman að fá skyndilega mikilvægt hlutverk í því brýna verkefni að hefta framgang spillingaraflanna sem teygja anga sína víða. Þessi hópur varð vitanlega strax á einu máli um að Páll væri alveg ómögulegur maður, skúrkur og spillingargaur. … Því miður er það of oft þannig að látið er undan þeim sem skrækja hvað hæst án þess að hafa skynsamlegan málstað með sér. Það er þingmaður hrópi á Alþingi orðið hneyksli til að koma sjálfum sér í kvöldfréttir er engin staðfesting þess að upphrópun hans sé réttmæt og þörf. Og þótt stjórnarþingmenn og bloggkórar taki undir með honum sýnir það ekki heldur að upphrópanirnar séu byggðar á skynsamlegum rökum. Það sem eftir stendur er að of margir hafa farið fram úr sjálfum sér í upphrópunum um hneyksli.
Það er mikið til í þessu hjá Kolbrúnu. Raunar er íslensk stjórnmálaumræða undirlögð af upphrópunum þessi misserin. Þar bera ríkisfjölmiðlarnir mikla ábyrgð, en þeir hafa hampað rugludöllum og upphrópurum með einstæðum hætti undanfarin ár. Hlutleysisreglur stofnunarinnar virðast vera sérstakt aðhlátursefni innanhúss og fréttamenn og aðrir dagskrárgerðarmenn virðast fá næstum frítt spil til að berjast fyrir eigin hugðarefnum. Ef fréttamenn og aðrir fjölmiðlamenn vilja leita að einhverju til að hneykslast á, þá er ekki víst að þeir þurfi að fara svo langt sem í Bankasýslu ríkisins til að finna slíkt. Og það gæti jafnvel verið að þeir fyndu eitthvað sem einmitt heyrir undir Pál Magnússon, þótt sá Páll hafi reyndar aldrei í Bankasýsluna komið.