Vefþjóðviljinn 296. tbl. 15. árg.
Þeir sem lengi hafa fylgst með stjórnmálaumræðu hafa ekki komist hjá því að taka eftir því hvílíka dýfu hún hefur tekið á örfáum misserum. Í mörgum tilvikum má þar tala um hrun, svo notað sé útjaskað orð. Hvers kyns fjarstæður og staðleysur, að ógleymdum misskilningi og hæpnum fullyrðingum, vaða nú uppi og þykja góðra gjalda verðar. Ótrúlega margir hafa uppi miklar fullyrðingar og stóryrði um stjórnmál og efnahagsmál, en virðast haldnir algeru skilningsleysi á mikilvægustu grundvallaratriðum. Reglulega má heyra fráleitar tillögur, kröfur eða ásakanir, sem gefa til kynna að ræðumaður hafi ekki nokkurn minnsta skilning á hversu ótrúlega mikilvæg athafnafrelsi, eignaréttur, viðskiptafrelsi, samningafrelsi eða bara almennt réttarríki eru fyrir siðað samfélag. Og ef marka má undirtektirnar má oft hið sama segja um stóran hluta áheyrenda. Skyndilega er eins og hvers kyns þvættingur þyki boðlegur málflutningur í opinberri umræðu.
Hér, eins og á mörgum öðrum sviðum þjóðlífsins, er þörf skjótrar bragarbótar.
Nýlega bættist í Bóksölu Andríkis áhugaverð bók, sem margir gætu haft gott af að kynna sér. Peningar, græðgi og Guð nefnist hún og er eftir Jay W. Richards, sem er doktor í heimspeki og trúarbragðafræðum frá Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Þar tekst hann á við ýmsar goðsagnir um kapítalismann, goðsagnir um græðgi og sjálfselsku, gegndarlausa neysluhyggju og sóun náttúruauðlinda. Hann sýnir með tölfræðilegum gögnum að fátækt, ójöfnuður og mengun er langminnst í þeim ríkjum þar sem kapítalismi fær að njóta sín og ræðst gegn þeirri kenningu að hann byggist á sjálfselsku og græðgi.
Bókin nefnist Peningar, græðgi og Guð. Hvers vegna er Guðs getið í titlinum, er þetta kannski guðfræðirit? Höfundurinn er að vísu kristinn maður og hann rökstyður í bókinni hvers vegna kapítalisminn sé í fullu samræmi við kristindóm. En það þýðir ekki að bókin sé ekki ætluð öðrum lesendum. Það, sem hefur fengið marga kristna menn til að tortryggja kapítalisma, er það sama og hefur fengið svo marga aðra til þess, þótt þeir síðarnefndu geri það ekki af trúarlegum ástæðum. Richards snýst einfaldlega gegn ótal ranghugmyndum um kapítalisma, ranghugmyndum sem margir eru haldnir, hverrar trúar sem þeir eru, eða þá trúlausir. Bókin er mikilvægt innlegg í þjóðfélagsumræðu sem sárlega þarf á því að halda að ranghugmyndum verði eytt en skynsemi gert hærra undir höfði. Undirtitill bókarinnar er Hvers vegna kapítalisminn er lausnin en ekki vandamálið, og rökin fyrir því eiga erindi til allra.
Bókin kostar 2990 krónur í Bóksölunni og er heimsending innanlands innifalin í verðinu, eins og alltaf í Bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 900 króna sendingargjald. Þá er rétt að vekja athygli á að nýlega var greiðslumöguleikum í Bóksölunni fjölgað og er nú hægt að greiða bækurnar með millifærslu á bankareikning, ef menn kjósa það frekar en greiðslukortaviðskipti.